144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg fyrir að menn eru búnir að tapa þessu sumri, það verður ekki unnt að setja á einhverja gjaldtöku hér nánast upp úr þurru og fyrirvaralaust á örfáum dögum í vor. Menn verða bara að horfast í augu við það eins og það er. Annað árið í röð er farið í súginn og það er ekkert annað að gera en að setja fjárveitingu úr ríkissjóði í Framkvæmdasjóð ferðamála til að hægt sé að minnsta kosti að ráðast í allra brýnustu verkefnin á þessu sumri.

En ég bendi á að það mætti til dæmis breyta og betrumbæta gistináttagjaldið. Það væri tekjustofn upp á 400–500 millj. á ári, segjum það til að byrja með, með svipuðum hætti og markaðar tekjur Vegagerðarinnar eru. Þá gæti Framkvæmdasjóður ferðamála að sjálfsögðu fengið lánað tímabundið frá ríkinu og hann endurgreiddi það síðan með sínum mörkuðu tekjum. Það er einfaldlega að myndast skuld á reikningi Framkvæmdasjóðs ferðamála. Við fleyttum okkur yfir eitt, tvö, þrjú erfiðustu árin með slíkum hætti. Síðan innheimtum við gistináttagjaldið áfram og það skilar sínum tekjum og á tveimur til þremur árum endurgreiðir Framkvæmdasjóður ferðamála það til baka. Ef viljinn er til staðar er ekkert vandamál að gera þetta, að sjálfsögðu ekki.

Ég hallast að því að skásta fyrirkomulagið sé að halda sig við gistináttagjaldið, betrumbæta það og færa sig síðan yfir í þjónustugjöld þegar búið er að byggja upp þjónustuna. Þegar búið er að malbika bílastæði á fjölsóttum ferðamannastöðum eiga menn auðvitað að fara að borga þar fyrir að leggja bílum og rútum. Þegar komin er góð hreinlætisaðstaða er ekkert að því að taka eitthvert gjald fyrir hana. Þar gætu komið inn talsverðar tekjur á fjölsóttustu stöðunum sem mætti svo nota til úrbóta á öðrum.

Að lokum vil ég aðeins fá að svara fyrri spurningunni úr fyrra andsvari hv. þingmanns um Grágás og Jónsbók. Það er grundvallarmisskilningur að þær eigi ekki við í dag. Ákvæðin um almannaréttinn og ferðafrelsið voru nefnilega ævintýralega vel hugsuð. Og hvernig er það með Sjálfstæðisflokkinn? Rennur blóðið ekkert í honum þegar hugtakið ferðafrelsi er nefnt? Frelsi? Það stóð hvergi í Jónsbók að menn mættu gera hvað sem er á landi annars manns, en menn máttu með friði fara yfir það. (Forseti hringir.) Menn máttu beita hestum sínum ef þeir voru svangir, menn máttu veiða sér til bjargar, menn máttu taka sér hrís til að elda mat, (Forseti hringir.) en menn áttu að ganga vel um, þá eins og nú.