144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:38]
Horfa

Áslaug María Friðriksdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst eins og hv. þingmenn sem hér hafa fjallað um þetta frumvarp gleyma því svolítið að það var ekki bara gripið úr loftinu, ráðherra greip þetta ekki úr loftinu og skrifaði það út frá eigin höfði. Það stendur hérna skýrt að það sé unnið fyrst og fremst vegna þess að mikil eftirspurn kom fram um að málið yrði skoðað, eins og stendur hérna, að það hefði verið sterkt ákall um að fara að mynda einhverjar svona leiðir. Í samráðsferlinu er alveg skýrt, eins og segir hér, að kallað var nákvæmlega eftir þessari leið. Þess vegna er hún í þessu frumvarpi og við erum að fjalla um hana, þannig að það þýðir ekkert að henda henni í burt eins og hún sé eitthvert sleifarlag.

Svo finnst mér hv. þingmenn vera að gera allt of mikið úlfalda úr mýflugu um hversu erfitt verði að hafa eftirlit. Það má alveg hafa lítið eftirlit fyrsta árið. Það er hægt að smella þessu í gang mjög hratt. Ég efast ekki um að þessi framkvæmd yrði mjög auðveld. Hér er algerlega verið að gera úlfalda úr mýflugu. Eflaust hafa allir hv. þingmenn hér inni ferðast með samgöngukerfum til dæmis á Norðurlöndum. Þar hoppar maður um borð, það spyr enginn um skírteini eða gjald. Ef maður hins vegar borgar ekki, auðvitað er hætta á að lenda í einhverri rassíu, maður lendir kannski aldrei í henni en stundum, einhvern tíma, og þá er borguð sekt. Þetta geta verið nákvæmlega sömu aðstæður og við erum að tala um, nákvæmlega sömu, þetta er ekki flókið. Það er búið að gera þetta margoft og þetta er við lýði í mörgum löndum. Fólki finnst þetta ekkert óeðlilegt.