144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:43]
Horfa

Áslaug María Friðriksdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé nú einfaldlega fyrir mér að læra af þeim sem hafa rekið svona kerfi í áraraðir og það án nokkurra vandræða, það getur því ekki verið flókið.

Svo er það hitt með samráðið. Það getur vel verið að ferðaþjónustuaðilar sem kölluðu nákvæmlega eftir þessari leið hafi núna skipt um skoðun, en það er líka alveg hægt að endurskoða hlutina. Það er hægt og verður væntanlega gert, en núna er þessi hugmynd hér á borðinu og hún er vel framkvæmanleg. Það er vel hægt að koma henni fyrir og koma þessu máli af stað mjög hratt. Auðvitað má strax fara að huga að betri leiðum ef þær eru til en ég get ekki séð að þessi leið sé svo vond. Mér finnst hún auðveld í framkvæmd og mér finnst sú gagnrýni sem ég hef heyrt í dag á hana einhvern veginn ekki nógu góð rök til að falla alveg frá hugmyndunum sem hér koma fram.