144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég benti á að komugjald lestar farmiðann og gistináttagjald lestar hótelin eða gistinguna, þar sem það er talið fram. Það er heilmikil svört atvinnustarfsemi í þeim geira og gistináttagjaldið skekkir enn frekar samkeppnisstöðuna. Ég held að hv. þingmaður ætti því að fara að skoða þá leið sem hér er lögð til og lestar hvorki ferðalögin né gistinguna.

Heimildir eftirlitsmanna, það má vel vera að skerpa þurfi á þeim. Þá gerir hv. nefnd það, skerpir á heimildum eftirlitsmanna ef það er ekki þegar í frumvarpinu.

Nú er það þannig þegar talað er um einkaaðila, að hægt sé að innheimta fyrir bílastæði o.s.frv., að þetta kostar allt saman. Innheimtan kostar lifandis býsn. Ef einkaaðili er með litla lóð og fáar rútur koma á hverjum degi þá borgar sig ekki að innheimta, sá aðili mun væntanlega taka náttúrupassa feginshendi. Það kostar að innheimta, hvort sem það er aðgangseyrir eða bílastæðisgjald. Fólk þarf að vera á vöktum langt fram á kvöld og snemma morguns. Þetta er óskaplega dýrt, það sjá menn til dæmis í Hvalfjarðargöngunum, það kostar 60 til 70 millj. kr. á ári að innheimta þar. Ég hugsa því að það verði fleiri sem taka þátt í þessu sem einkaaðilar en gert er ráð fyrir og menn hafa talað hér um, að það verði vinsælt hjá einkaaðilum að taka þátt í þessum náttúrupassa.

Svo varðandi trépallana og handriðin, hv. þingmaður nefndi einmitt Ólafsfjarðarmúla. Ég hef komið þangað, hljóp þar einu sinni um, hann er stórhættulegur. Ég sæi ekki 100 manns þar uppi og rútur án þess að hafa mjög góð handrið þegar krakkarnir fíflast um allt.