144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem hefur farið fram hér í dag er búin að vera að mörgu leyti mjög áhugaverð og ánægjuleg en að mörgu leyti þykir mér að hún hafi farið svolítið í hringi, ég kem betur inn á það á eftir. En sjálfum hefur mér fundist að við séum svona 30 árum of sein að taka upp eitthvað sem heitir gjald vegna ferðamannastaða. Ég man eftir því að fyrir um 20–25 árum síðan var þetta mjög í umræðunni og þá var hér háttsettur opinber starfsmaður í ferðaþjónustunni sem aftók þetta með öllu og kallaði glápgjald og hélt vinnunni. Mér fannst það með ólíkindum þá og með ólíkindum nú að menn skuli ekki vilja leggja á gjöld sem nauðsynleg eru til að ná því markmiði sem ég held að við séum öll sammála um. Það er markmiðið sem kemur fram í 1. gr. frumvarpsins, en þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að verndun náttúru Íslands með nauðsynlegri uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða svo og að styðja við málefni er tengjast öryggismálum ferðamanna.“

Ég held að við séum öll sammála um þetta. Ég held að það sé líka út af fyrir sig nærtækt fyrir okkur að horfa til þess hvernig er hægt að ná markmiðum í gjaldtöku á eins einfaldan og skilvirkan hátt og hægt er. Við höfum haft í nokkur ár gistináttagjald sem er meingallað, erfitt í innheimtu, hefur ekki skilað því sem til var ætlast í upphafi og því miður eru væntanlega bara á höfuðborgarsvæðinu þúsund herbergi og íbúðir sem eru leigð út án þess að vera skráð, skila engu gistináttagjaldi, skila reyndar engum sköttum. Það er skelfing til þess að hugsa og ég er næsta viss um að þetta er ekki einsdæmi í Reykjavík, þetta er svona víðar. Þannig að gistináttagjaldið er mjög flókið í innheimtu. Innheimtuaðilar eru margir, það er dýrt að innheimta það og það er akkúrat það sem við þurfum að forðast. Þá beinast sjónir manns að því hvaða leið sé líkleg til að vera einföld og, hvað á ég að segja, bitna síst á Íslendingum. Það er kannski eitt af því sem hefur komið mér svolítið á óvart hér í dag að það er gert ráð fyrir því að náttúrupassi, ef af honum verður, muni kosta Íslendinga 1.500 kr. til þriggja ára, þ.e. 500 kr. á ári.

Ef við tökum komugjald til samanburðar þá er næsta víst að leggja þarf komugjald einnig á innanlandsflug. Það þýðir til dæmis að fólk sem býr á Egilsstöðum og á langveikt barn eða er sjúklingar sjálft þarf að borga ofan á farmiðann sinn í hvert einasta skipti sem það flýgur milli landshluta. Það eru akkúrat svona hlutir sem við þurfum að reyna að koma í veg fyrir með því að einfalda málið eins og við mögulega getum.

Ég set marga fyrirvara við frumvarpið. Mér finnst að betrumbæta megi það á margan hátt en mér finnst grunnhugmyndin góð. Í sinni tærustu mynd finnst mér að náttúrupassi sé eins og nokkurs konar aðgöngumiði að Íslandi öllu sem nokkurs konar þjóðgarði, að Ísland allt sé einn þjóðgarður og með því að greiða fyrir náttúrupassa greiði menn fyrir aðgang að þessum þjóðgarði. Það kom fram spurning áðan hjá hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur þar sem hún var að velta fyrir sér hvað útlendingum fyndist um innheimtu slíkra gjalda á Íslandi. Ég er næsta viss um að fólk sem býr við Königssee í Bæjaralandi og er búið að borga þar aðgang að sinni náttúruperlu í 120 ár, því bregður ekki við að koma til Íslands og borga fyrir að upplifa náttúruperlur. Ég er nokkuð viss um að fólki sem býr í námunda við eða hefur heimsótt Krimmler-fossa í Austurríki og borgað þar aðgang flökrar ekki við því að koma hingað og borga aðgang að náttúruperlum. Ég er líka viss um að fólki sem hefur komið í Miklagljúfur í Bandaríkjunum eða í Yosemite þjóðgarðinn og hefur borgað þar inn, finnst ekki tiltökumál að koma til Íslands og borga fyrir upplifun í íslenskri náttúru. Auðvitað eigum við að horfa til þess sem er gert annars staðar og hefur gengið vel annars staðar vegna þess að á öllum þeim þremur eða fjórum stöðum sem ég nefndi vaða menn ekki aurinn í hné eins og þeir gera á útmánuðum á Þingvöllum. Þess vegna eru pallar með handriðum ekki svo rosalega óhuggulegar framkvæmdir á Þingvöllum fyrir þann sem hefur gengið þar um á útmánuðum þar sem ekki eru pallar. Og það er ekki nóg með að maður vaði aurinn í hné heldur skaðar maður líka landið með þessu. Sá tími er kominn fyrir löngu að margar af okkar dýrmætustu perlum eru í hættu vegna of mikils ágangs.

Það er eins og stundum gerist hjá okkur Íslendingum, fyrir nokkrum árum voru allir sammála um að stefna bæri að því að innan nokkurra ára kæmu til Íslands 1 milljón ferðamanna. Nú gerist það og mér finnst einhvern veginn eins og við segjum þá: Úps, það eru komnir milljón ferðamenn, hvað eigum við að gera við þá? Dálítið svona séríslenskt. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið og við erum fyrir löngu komin fram yfir þann tíma. Við verðum að grípa til einhverra ráða til að sjá til þess að þeir staðir sem eru ofsettir eyðileggist ekki. Menn hafa talað hér mikið um almannarétt og hann er okkur öllum dýrmætur og hér hefur verið vitnað í Guðmund Böðvarsson og Jónas Hallgrímsson og Rauðhettu því máli til stuðnings og ég tek heils hugar undir það, en það eru samt hér staðir sem ég er alveg sannfærður um að verður innan skamms, innan mjög skamms tíma, jafnvel lokað, að á þá verði sett ítala og jafnvel gengið þannig frá málum að við fáum ekki að ganga um þá nema undir leiðsögn leiðsögumanns.

Ég get nefnt bara tvær gönguleiðir á Íslandi, Fimmvörðuháls og Laugaveginn. Þetta er gersamlega ofsett, niðurtroðið og horfir til vandræða ef svo heldur áfram sem horfir. Á síðastliðnum 20 árum hef ég komið í Landmannalaugar, eins og þið eflaust mörg, á fimm ára fresti og ég þarf alltaf áfallahálp eftir að ég er búinn að vera þar, ástandið versnar í hvert einasta skipti. Þar þurfum við að vera menn til að segja nei, hingað koma ekki nema þúsund manns á dag eða 500 manns á dag, og við verðum að sjá til þess að við tökum almennilega á móti þeim. Auðvitað mun það skerða almannarétt en ég held að það sé nauðsyn að gera eitthvað slíkt, að grípa til slíkra ráða til að forða því að þessir staðir troðist endanlega niður.

Við þurfum ekki eingöngu að koma í veg fyrir að perlurnar okkar troðist niður. Við þurfum líka að aðgæta að tekið sé sómasamlega á móti þeim sem koma hingað sem gestir, að þeir geti gengið nokkurn veginn þurrum fótum ef þannig viðrar þangað sem þeir vilja fara, að þeir hafi sjálfsagða salernisþjónustu og öryggis þeirra sé gætt þannig að þeir stigi ekki ofan í hveri, gangi ekki fyrir björg o.s.frv. Í sjálfu sér held ég að við séum heppnari en við höldum, Íslendingar, að við skulum ekki hafa misst fleiri ferðamenn í slysum undanfarin ár vegna þess að eftirlit okkar hefur verið ónógt, þjónustan hefur verið ónóg og móttakan á stöðunum ekki eins og hún hefur átt að vera.

Eitt dæmi get ég nefnt í viðbót þar sem er spurning um að byggja upp innviði, sem er landsvæði eins og Suðurland. Yfir sumartímann margfaldast náttúrlega íbúatalan þar. Hvað hefur það í för með sér? Ég veit að leiðsögumenn með fulla rútu af fólki hafa verið í vandræðum út af því að farþegar um borð hafa fengið skyndileg heilsuáföll, hjartaáföll, sykursýkissjokk. Hvar er þá næsti læknir? Við þurfum að hugsa fyrir öllum þessum hlutum þannig að fólk geti upplifað þau dýrmæti sem við eigum og gert það á öruggan hátt og á þann veg að það sé til í að koma hér aftur og/eða mæli með því við næsta mann að koma hingað. En auðvitað þurfum við að vera í stakk búin til að taka á móti fólkinu.

Ég segi að í einföldustu mynd sinni finnst mér náttúrupassinn aðlaðandi að þessu leyti eins og ég sagði áðan. Hann leggst að litlu leyti sem kostnaður á landsmenn. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að aðgæta þurfi hvernig hann sé seldur og hvar og þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan um aðgöngumiða að Íslandi. Ég sé ekkert að því að náttúrupassinn sem slíkur sé forsenda þess að menn fái hér inngöngu, fái að koma inn í landið, hann sé seldur í farmiða hvort sem er á ferju eða í flugi og hann sé seldur sem partur af miða á skemmtiferðaskipi. Við skulum ekki gleyma því að við þurfum að þekja allan þennan markað þannig að við mismunum ekki, okkur er það náttúrlega ekki heimilt. Því einfaldari sem innheimtan er og á því færri stöðum sem hún fer fram, því betra.

Ég sagði áðan að gistináttagjaldið væri að því leyti til slæmt. Það er innheimt á hundruðum eða þúsundum staða hér á Íslandi. Gjaldstofninn er mjög lágur og það er mjög dýrt að fylgjast með þessu. Jafnvel þótt okkur finnist að innheimta í flugmiða sé einföld þá held ég samt, ef ég man rétt að það séu í kringum 45 aðilar sem á einhverjum tíma ársins sjá um flug til Íslands á hverju einasta ári, 45 aðilar. Samt er tiltölulega einfalt að halda utan um það. Ef við bætum við þeim sem lenda utan Keflavíkur þ.e. í Reykjavík, Akureyri, jafnvel Egilsstöðum og ferjunni á Seyðisfirði erum við farin að tala um hátt í 60 aðila. Við þurfum að gaumgæfa þessi mál mjög vel og ég er alveg viss um að þegar frumvarpið kemur til atvinnuveganefndar þá mun það verða tekið til mjög gaumgæfilegrar skoðunar, það verður tekið til vandaðrar meðferðar, þeir sem sitja í hv. atvinnuveganefnd munu fá gesti o.s.frv. Atvinnuveganefnd er nú þekkt fyrir að taka hressilega á málum ef þannig ber undir og ég er alveg sannfærður um að það verður gert í þessu tilfelli.

Ég hef ekki áhyggjur af afstöðu Samtaka ferðaþjónustunnar til þessa máls vegna þess að hún hefur í sjálfu sér ekki verið einsleit meðan málið var til meðferðar fram að þessu. Menn hafa talað þar úr og í og segja má að hreyfingin sé að nokkru leyti klofin í afstöðu sinni til málsins eins og það er. Það er hins vegar alveg sjálfsagt, nauðsynlegt og eðlilegt að hafa samráð núna við þessa aðila í því ferli sem fram undan er til þess að tryggja að málið fái góðan framgang og við gerum eins vel úr því og hægt er. Það er ekki gallalaust. Það eru hér atriði sem ég geri fyrirvara við, eins og t.d. í 4. gr., þar sem segir að ferðamannastaðir í eigu annarra en opinberra aðila geti sótt um aðild að náttúrupassa. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi með einhverjum hætti að skylda menn til að taka þátt í honum. Við eigum ekki að hafa tvöfalt, þrefalt, fjórfalt kerfi á því hvernig við innheimtum. Við eigum ekki að gera það. Við eigum að forðast það eins og við mögulega getum. Það hlýtur að vera hægt að ganga þannig frá að þetta verði nógu mikil gulrót til að hægt sé að tryggja að þátttakan verði mikil.

Annað atriði er í 11. gr., og er nú bara úrvinnsluatriði, það er hvernig skipt verður tekjum. Þar finnst mér vanta aðeins upp á að ætlaðar séu tekjur til staða sem þurfa á uppbyggingu að halda til að hægt sé að dreifa ferðamönnum þangað. Ég get nefnt af handahófi Borgarfjörð, Snæfellsnes sem er vannýtt í dag og þar er líka skortur á aðstöðu. Ég gæti tekið norðausturhornið, ég gæti tekið Vestfirði, allt eru þetta staðir sem við þurfum að huga að til að geta dreift ferðamönnum betur og öruggar um landið og til þess að stuðla að því að uppbygging eigi sér stað sem víðast og við getum unnt ferðamönnum þess að sjá sem mest af landinu og kappkostað að það verði ekki á kostnað landsins. Um það hljótum við að verða sammála.