144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar orð. Það er rétt skilið hjá þingmanninum að sá sem hér stendur er stuðningsmaður þess að þetta mál fái brautargengi, en ég tel að það þurfi að verða á því nokkrar breytingar. Vegna hvers tel ég að þetta mál eigi að fá brautargengi? Að mestum parti vegna þess, eins og ég sagði áðan, að það er einfalt í framkvæmd og það bitnar síst á Íslendingum, að þeir þurfi að greiði fyrir það sem er að gerast. Það vill nú þannig til að við erum „nauðbeygð“ til þess að rukka Íslendinga líka vegna þess að við erum þátttakendur í alþjóðasamstarfi sem leggur okkur það á herðar. Að mínu mati hefði „ideal“ lausnin, ef ég má sletta, verið sú að við hefðum tekið upp gjald líkt ESTA-gjaldi Bandaríkjamanna, en það gengur ekki vegna þess að við erum í EES o.s.frv. Þá leitum við annarra leiða og að mínu mati eigum við að leita þeirra leiða að gjaldið sé skilvirkt, það sé einfalt að innheimta það, það sé ekki tiltakanlega íþyngjandi og að það bitni sem allra minnst á Íslendingum sjálfum. Ég sé út af fyrir sig ekki muninn á því að við borgum 1.500 krónur til þriggja ára, 500 kr. á ári, fyrir að fara hér um landið. Ég tel það ekki ógna almannarétti, alls ekki, það ógnar almannarétti ekki meira en ef við mundum sleppa þessu og fara með það í almenna skattheimtu og þurfa kannski að hækka skattprósentuna eða innheimta gjöld á annan hátt. Ég sé ekki að þetta sé íþyngjandi. Ég held að það sé alveg hægt að hafa eftirlit til dæmis með Íslendingaþættinum í gegnum skattframtalið. Ég held að það sé einfaldasta leiðin. Þannig að yfir það heila tekið er ég (Forseti hringir.) fylgismaður þess að þetta mál fái brautargengi með nokkrum breytingum.