144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er ljúft að reyna að varpa ljósi á það fyrir hv. þingmann hvað ég átti við. Ég tel að okkur Íslendingum sé ekkert að vanbúnaði að greiða 500 kr. á ári fyrir aðgang að völdum náttúruperlum, íslenskum. Ég vitna til reynslu annarra þjóða í því. Í þjóðgarðinum í Miklagljúfri í Bandaríkjunum, sem er reyndar risastór og tekur ef ég man rétt um 40 mínútur að keyra í gegnum, er t.d. hlið á báðum endum og selt drjúgt inn. Þar fá menn ekki að haga sér eins og hver vill. Þar fara menn ákveðnar leiðir, reyndar í rútum því að þjóðgarðurinn er mikill yfirferðar. Ég sé ekkert að því. Ég er búinn að hafa áhyggjur af Þingvallaþjóðgarði í mörg herrans ár og hef þess vegna glaðst yfir hverjum stubb af göngustíg sem ég hef séð settan þar, hvort sem um er að ræða timbur eða möl. Ég sé ekkert að því að bæði Íslendingar og útlendingar greiði á einhvern hátt fyrir aðgang að þessari perlu til þess að koma í veg fyrir að hún verði fyrir áþján.

Þegar ég tala um frjálst flæði um landið þá er ósköp notalegt að geta gengið þvert yfir vellina og vaðið í lækjunum og það allt, en það gerðum við á dögum Grágásar þegar við vorum nokkrir tugir þúsunda í landinu. Nú erum við 330 þúsund og fáum rúma milljón ferðamanna í heimsókn í ofan í kaupið þannig að álagið á landið er allt annað og með allt öðrum hætti en þá var. Þar af leiðandi þurfum við náttúrlega að gaumgæfa og kappkosta að landið verði ekki fyrir (Forseti hringir.) átroðningi.