144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:45]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og yfirferð hennar. Þessi umræða hefur farið vítt og breitt í dag og er hvergi nærri lokið.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann af því hún á sæti í fjárlaganefnd. Ég er svolítið hugsi yfir peningahliðinni á þessu öllu saman og þá sérstaklega hvernig Framkvæmdasjóði ferðamannastaða reiðir annars vegar af og hins vegar hinum hlutanum sem gistináttagjaldinu var ætlað í, þ.e. 40% eða 2/5 af innkomu vegna gistináttagjaldsins sem var ráðstafað beint án aðkomu Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í þjóðgarða og friðlýst svæði, bæði Vatnajökulsþjóðgarð og Þingvallaþjóðgarð. Þarna virðist vera eins og með einu pennastriki sé ekki gert ráð fyrir því að þessum þjóðgörðum og friðlýstu svæðum sé bætt þessi breyting því að ég fæ ekki séð að náttúrupassinn eigi að koma þessum tilteknu svæðum til góða.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi annaðhvort í yfirferð sinni og lestri á málinu eða við umræðuna í dag áttað sig á því hvort það liggi einhvers staðar inn á milli línanna að tryggja að þessi svæði verði ekki af þessum hluta fjármögnunarinnar. Við værum komin á mjög skrýtinn stað ef þetta þingmál yrði til að skerða stöðu þjóðgarðanna á Íslandi.