144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:15]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að forðast misskilning þá tók ég því ekki þannig að þingmaðurinn væri að væna mig um að vita ekki um hvað ég væri að tala, þetta kom kannski brenglað út úr mér.

Varðandi eftirlitið, eins og ég segi, þá er því ekki ætlað að vera umfangsmikið. Það er ætlunin, það er hugsunin í kringum þetta, að þetta verði sameiginlegt verkefni. Það er þess vegna sem gjaldið er haft hóflegt. Það er þess vegna sem verið er að reyna að taka utan um þetta á þann hátt að við verðum stolt af því að taka þátt í því að borga 1.500 kr. á þriggja ára fresti til að vernda náttúruna.

Það er ekki þannig, eins og fram kom hér hjá hv. þm. Rósu Björgu Brynjólfsdóttur, að ég hafi sagt að við ætluðum að græða á massanum. Nei, við ætlum að fjölga þátttakendum í náttúruvernd á Íslandi. Það er miklu betri leið til að nálgast þetta. Við ætlum að láta þá sem eru að miklu leyti til ástæða þess að við þurfum að verja meiri peningum í þessa uppbyggingu taka þátt í henni með okkur.

Eftirlitið ber keim af þeirri hugsun. Ég hef líkt því við stöðumæli, það er líka hægt að líkja því við það sem gerist í almenningssamgöngukerfum í nágrannalöndunum. Ef menn kaupa sér ekki miða og eru staðnir að verki í lestinni fá menn sekt. Það gerist afskaplega sjaldan en þegar það gerist þá fá menn sekt. Það eitt og sér hefur fælandi áhrif.

Hvaða staðir eru þetta? Hugsunin gengur út á það að öll svæði í eigu og umsjá ríkis og sveitarfélaga séu undir þannig að ekki verði rukkað með öðrum hætti fyrir aðgang að öllum þeim svæðum sem svo háttar um. Síðan er gerð krafa um að menn beri passann á þessum tilteknu stöðum. Þetta eru þessir fjölförnustu staðir, Gullfoss, Skaftafell, Dimmuborgir, Skógarfoss, Seljalandsfoss, þar sem átroðningurinn er mikill. Síðan, og það er kannski þess vegna líka sem við settum það ekki inn í lögin, þarf að endurmeta þetta. Þetta getur orðið til þess að álagið fer að dreifast, sem við vonum, og þá þurfum við að fjölga og færa til. En það eru þessir staðir þar sem (Forseti hringir.) innviðauppbygging hefur annaðhvort átt sér stað eða þörf er á henni vegna átroðnings ferðamanna.