144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:20]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er strax talsverður árangur að að minnsta kosti einn þingmaður er jákvæðari nú að kvöldi dags en hún var í morgun gagnvart þessu máli. Dropinn holar steininn.

Varðandi spurningu þingmannsins um einkaaðilana er ekki í þessu frumvarpi per se verið að banna einkaaðilum að rukka aðgangseyri. Eins og ég fór yfir í minni ræðu í morgun er það ekki hægt í þessu frumvarpi frekar en að við bönnum það með því að taka gistináttagjald eða komugjald eða taka þetta af virðisaukaskattinum, það er bara annað mál. Þar togast á þessi tvennu réttindi borgaranna, almannarétturinn og eignarrétturinn, hvort tveggja mjög mikilvæg réttindi sem við stöndum vörð um. Það verður bara að útkljá það annars staðar.

Með því að bjóða einkaaðila velkomna og segja þeim að þeir séu velkomnir í þetta og geti þá fengið framlög til sinna svæða, sinna verkefna, án þess að þurfa að leggja fram mótframlag erum við að reyna að draga þá með okkur. Ég tel ekki hægt að skylda menn inn í það kerfi, þeim er í sjálfsvald sett að rukka fyrir veitta þjónustu þó að þeir séu aðilar en þeir mega bara ekki innheimta aðgangseyri, gjald til að koma inn á svæðið.

Annað mikilvægt í þessu er að með því að ríki og sveitarfélög taki ábyrgð á sínum svæðum náum við yfir mjög stóran hluta landsins, mjög stóran hluta vandamálsins getum við sagt. Það eru ekki mörg svæði eftir og miðað við samtöl mín við ýmsa aðila í þessari stöðu er ég vongóð um að þeir sjái sér frekar hag í því að koma þarna, fá fjármögnunina til uppbyggingarinnar og geta þá einbeitt sér einmitt að því að veita þjónustu, bæta afþreyinguna, koma inn með veitingastaði og þessa hluti sem auka enn á verðmæti landareignarinnar. Við erum frekar að nota þá aðferð að laða þá til okkar í samstarf en að fara leið boða og banna.