144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfsskilyrði þekkingarfyrirtækja.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi finnst mér rétt að gera athugasemd við ákaflega þrönga skilgreiningu hv. þingmanns á hvað geti talist þekkingarfyrirtæki. Ég er ekki viss um að starfsmenn fjölmargra þeirra fyrirtækja sem eru á þeim lista sem hv. þingmaður vísaði til geti fallist á að þeirra fyrirtæki séu ekki þekkingarfyrirtæki ef hv. þingmaður finnur aðeins tvö sem uppfylla kröfu hans til að teljast þekkingarfyrirtæki.

Hvað varðar það atriði sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, flutning höfuðstöðva Promens úr landi, hefur sú umræða sem skapaðist í kjölfar þess auðvitað orðið tilefni til að skoða þessi mál. Ég ræddi málið við seðlabankastjóra í morgun. Svo virðist sem ekki sé allt sem sýnist í þessu tilviki. Þetta fyrirtæki hefur fengið undanþágur frá gjaldeyrishöftum á undanförnum árum. Sú höfnun sem vísað er til kom til fyrir allmörgum mánuðum og snerist um beiðni til að kaupa hér erlendan gjaldeyri á afslætti, sem svo mætti kalla vegna þess að skráð gengi Seðlabankans er auðvitað allt annað en aflandsgengið, til að nýta það fjármagn í fjárfestingar erlendis. Þetta fyrirtæki hefði vel getað tekið lán fyrir þessum fjárfestingum í útlöndum. Þetta snerist því ekki um að verið væri á einhvern hátt að gera fyrirtækinu ómögulegt að starfa hér og raunar ekki heldur að gera því ómögulegt að starfa í útlöndum þó að Seðlabankinn verði að sjálfsögðu að leggja á það mat hvort eðlilegt sé að veita sérstaka fyrirgreiðslu til að greiða niður fjárfestingar erlendis.

Ákvörðunin um flutning kom hins vegar í kjölfar þess að fyrirtækið var selt til útlanda. Það þarf ekki að koma á óvart að þegar kaupandinn er erlendur vilji hann hafa fyrirtækið í grennd við starfsemi sína. (Forseti hringir.) En starfsemin á Íslandi helst hins vegar nánast óbreytt.