144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

Náttúruminjasafn Íslands.

[15:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eitt þriggja höfuðsafna á Íslandi heitir Náttúruminjasafn Íslands. Þetta höfuðsafn fékk innan við 25 millj. kr. á fjárlögum yfirstandandi árs og er ekki ofmælt að þetta sé ófremdarástand án þess að hér standi til með nokkrum hætti að fara að draga einhvern til ábyrgðar fyrir það. Í því samhengi er vert að geta þess að af milljón ferðamönnum sem komu til landsins má ætla að um 800 þúsund hafi komið hingað sérstaklega til að njóta íslenskrar náttúru. Á meðan erum við í raun og veru að skila auðu í einhverri framtíðarsýn fyrir Náttúruminjasafn Íslands.

Ég spyr hæstv. ráðherra um framtíðarsýn hans varðandi náttúruminjasafn. Hvar eru málin stödd að því er varðar húsnæðismálin? Safnið er núna í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu sem getur ekki talist nein framtíðarlausn. Hvar er málið statt varðandi sýningu í Perlunni sem hefur lengi verið rædd? Svo er vert að spyrja hæstv. ráðherra um það sem var töluvert í umræðunni í haust sem leið, og hefur verið í umræðunni lengur, þ.e. hvert steypireyðurin á að fara og hvort hún eigi að vera krúnudjásn nýs náttúruminjasafns, eins og eðlilegast væri í eyríki.

Ég spyr sem sé hæstv. ráðherra: Hver er framtíðarsýnin og hver er staða húsnæðismála?