144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. málshefjanda fyrir þá umræðu sem hér er að hefjast og nefna að sú yfirlýsing sem vitnað er til milli stjórnvalda og lækna er fyrst og fremst yfirlýsing þessara tveggja aðila um að þeir ætli að taka höndum saman um að skapa bætta vinnuaðstöðu og auka hagkvæmni í kerfinu.

Það er vel þekkt hér á landi að í áranna rás hafa verið í gangi margvísleg rekstrarform í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Það er algerlega ástæðulaust af þessu tilefni að ala á einhvers konar hugmyndum um að fram undan séu byltingarkenndar breytingar sem eiga muni sér stað á grunni þeirrar yfirlýsingar sem hér er vitnað til. Ég leyfi mér að fullyrða að hér eftir sem hingað til mun ríkisstjórnin halda áfram að vinna að því að því að bæta heilbrigðisþjónustuna með það að markmiði að auka gæði og draga úr kostnaði. Horfum aðeins yfir sviðið og skoðum íslenska heilbrigðisþjónustu í dag og nefnum nokkur dæmi um þá heilbrigðisþjónustu sem verið er að veita sem ríkið hefur ekki með höndum. Ég held að það sé ágætt til upprifjunar að gefa sem gleggsta mynd af stöðunni í dag hvað það varðar. Stöldrum fyrst við hjúkrunarheimilin sem ýmist eru rekin af sveitarfélögum eða sjálfseignarstofnunum með samningum við ríkið. Elsta fyrirtækið í þessum bransa er Grund sem varð 90 ára árið 2012. Það hefur frá upphafi verið sjálfseignarstofnun. Það er elsta starfandi heimili fyrir aldraða og hefur veitt framúrskarandi þjónustu.

Ég get nefnt annað dæmi sem var mikið rætt hér á síðasta ári, en það eru sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru ekki á ábyrgð ríkisins. Við semjum við sveitarfélögin um þá þjónustu og í umræðum, í það minnsta á síðasta ári, hvatti mikill meiri hluti þingmanna til þess að halda þar áfram óbreyttu rekstrarformi.

Þriðja dæmið sem mætti nefna í þessu sambandi eru tannlækningar. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var gerð tímamótasamþykkt um ókeypis þjónustu tannlækna fyrir börn og samningur gerður við tannlækna í landinu sem reka sig fyrst og fremst sem einkafyrirtæki. Þá var ekki til umræðu, og hefur ekki verið, að ríkið tæki að sér þessa þjónustu og ræki hana.

Ég minnist líka umræðu frá samflokksmanni hv. málshefjanda þegar samningar við sjúkraþjálfara voru lausir á síðasta ári. Þá, í febrúar á síðasta ári, var ég eindregið hvattur til þess að ganga til samninga við sjúkraþjálfara hratt og vel á sama grunni og samningurinn hafði verið við þá. Öllum var ljóst þá í þeirri umræðu hvernig rekstrarforminu var háttað.

Ég vil nefna til viðbótar meðferðarúrræði SÁÁ, Krýsuvík og Hlaðgerðarkot. Við höfum líka heilsugæslu sem er í einkarekstri, Salastöðina og Lágmúlastöðina. Mikil ánægja er með þá starfsemi sem þar er. Til viðbótar mætti nefna ýmis önnur úrræði eins og líknandi þjónustu í heimahúsum, heimaþjónustu ljósmæðra, endurhæfingu á Reykjalundi og í Hveragerði og þannig væri hægt að fara víða yfir sviðið.

Það er mikilvægast í umræðunni um þetta mál að sú þjónusta sem við viljum að heyri undir ríkið sé vel skilgreind og öllum aðgengileg óháð efnahag eða búsetu. Að mínu mati er afar mikilvægt að gera greinarmun á ríkisrekstri annars vegar og opinberri heilbrigðisþjónustu hins vegar. Verið hefur víðtæk samstaða um það hér á landi að heilbrigðisþjónusta eigi að vera á ábyrgð hins opinbera og aðgengileg borgurunum án tillits til efnahags. Í áranna rás hefur reynslan sýnt og sannað að fjölbreytt rekstrarform er vel til þess fallið að bæta og auka heilbrigðisþjónustu við landsmenn. Forsenda þess að við getum unnið þetta skynsamlega er að þjónustan sem við ætlum að kaupa eða veita sé vel skilgreind. Rekstrarformið er algert aukaatriði í mínum huga í þeim efnum. Það er grundvallaratriði að ríkið sem ábyrgðaraðili þessa málaflokks geri grein fyrir því hvaða þjónustu það ætlar að kaupa og vill veita íbúum sínum til að geta eflt og stuðlað að gæðum og öryggi við þann grundvallarþátt sem hér er verið að ræða um.