144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Yfirlýsingin sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar undirrituðu ásamt fulltrúum lækna í kjölfar læknaverkfallsins var um margt mjög góð yfirlýsing. Þar eru gefin fyrirheit um eflingu heilbrigðisþjónustunnar og samhæfingu og að mörgu leyti er verið að vinna áfram á þeim grunni sem var skapaður til framhaldsvinnu af síðustu ríkisstjórn. En punktur um fjölbreyttara rekstrarform vekur alvarlegar áhyggjur á að einkavæða frekar heilbrigðisþjónustuna þvert á vilja almennings. Meginþorri almennings vill að skattfé sé veitt í heilbrigðiskerfið og aðgengi sé sem jafnast óháð efnahag en vill ekki að skattfé sé notað til að mynda arð til einstaklinga sem gera þjónustusamninga um heilbrigðisþjónustu við ríkið.

Einkarekstur er dýrari því sveigjanleiki verður minni í kerfinu, samhæfingin minni og eftirlitskostnaður meiri. Forsætisráðherra hefur gefið í skyn að aukinn einkarekstur sé ekki á dagskrá. Fjármálaráðherra er í hrópandi andstöðu og telur einkarekstur vel koma til greina auki hann skilvirkni. Þar talar hæstv. fjármálaráðherra eins og hann hafi hreinlega enga innsýn í íslenskt heilbrigðiskerfi og geri sér ekki grein fyrir því að stærsti vandi kerfisins er fjárskortur og lítið taumhald á einkarekstri. Við í Samfylkingunni viljum skýr svör frá hæstv. heilbrigðisráðherra. Ætlar hann sér að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þvert á vilja almennings eða ætlar hann ekki að gera það? Hann hefur gefið mörg svör í kjölfar yfirlýsingarinnar en ekkert þeirra er hægt að túlka sem skýra stefnu í þeim efnum. Þorir hæstv. ráðherra ekki að segja okkur af fyrirætlunum sínum?