144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg umræða. Við í Bjartri framtíð höfum ekki kippt okkur jafn mikið upp við yfirlýsinguna í kjölfar læknadeilunnar og margir aðrir. Við höfum það á stefnuskránni okkar að styðja fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustu og ég satt að segja sé ekki hvernig maður á ekki að gera það. Heilbrigðisþjónustan einkennist af mjög fjölbreyttu rekstrarformi. Til dæmis hafa verið nefnd hér SÁÁ og hjúkrunarheimilin, allar stofur sérfræðinga eru einkareknar og er einn meginþátturinn í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Það er hins vegar mjög mikilvægt í okkar huga að sjúkratryggingar séu ríkisreknar. Við ætlum ekki að fara með kerfið til Bandaríkjanna þar sem fólk þarf að kaupa sér sjúkratryggingu. Það er mjög mikilvægt að allir Íslendingar séu sjúkratryggðir og að það sé opinbert kerfi. Síðan skulum við ekki halda að allt annað sé þar með líka ríkisrekið þó að það sé svona lausnin á þessu öllu saman. Það blasir við mjög stórt verkefni í heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem snýst um að nýta betur hæfileika, tíma og fé. Annað verkefnið er að byggja upp hjúkrunarrými vegna þess að við viljum ekki að aldraða fólkið sé á spítölunum, það eru dýr pláss, hjúkrunarheimili henta miklu betur. Augljós dæmi um eitthvert viðfangsefni þar sem fjölbreytt rekstrarform koma að góðu gagni, og verum opin fyrir því, það er saga hjúkrunarheimila. Hitt verkefnið er að efla heilsugæsluna. Heilsugæslan á miklu meira að vera fyrsta stopp sjúklinga á Íslandi. Það gengur brösuglega. Ég held að í því verkefni þurfi að efla heilsugæsluna og horfa til fjölbreyttari rekstrarforma, að reyna að nýta sér aflið sem felst í frjálsu framtaki til að byggja slíkt upp. Í hvaða samkeppni er heilsugæslan í raun og veru? Það eru stofurnar. Við viljum ekki að sjúklingar fari til sérfræðinga, þeir eru með einkarekstur. Við viljum frekar að þeir fari í hagkvæmari einingar (Forseti hringir.) sem er heilsugæslan og það er spurning hvernig við byggjum hana upp. Ég held að fjölbreytt rekstrarform eigi alveg erindi inn í þá umræðu.