144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:52]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Að hafa aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu skiptir okkur öll máli sama hvar á landinu við búum. Aðgangur að heilbrigðisþjónustu er einn af þeim grunnþáttum sem einstaklingar horfa til þegar þeir velja sér búsetu. Öll eigum við rétt á öruggri og góðri heilbrigðisþjónustu. Afar ánægjulegt hefur verið að sjá þau skref sem stigin hafa verið á þessu kjörtímabili í uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur stóraukið fé til heilbrigðismála, þ.e. í almennan rekstur heilbrigðisstofnana og til tækjakaupa með það að markmiði að auka þjónustuna og til uppbyggingar á starfsaðstöðu fyrir þá er starfa í greininni.

Þess má geta ef við tökum sem dæmi að framlög til Landspítalans á þessu ári munu nema um 46 milljörðum kr. eða um 50 milljörðum með sértekjum. Árlegt fé til tækjakaupa á spítalanum hefur fimmfaldast frá árinu 2012 og nú hafa 5,5 milljarðar verið eyrnamerktir til tækjakaupa á Landspítalanum á árunum 2014–2018. Auk þessa hafa tækjakaup til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni verið aukin og einnig fjármagn til að styrkja rekstrarform heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva en það var aukið um 100 millj. kr. og þannig getum við talið áfram. Því er óhætt að segja að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sjái mikilvægi þess að auka fjármagn inn í þennan málaflokk og horfi fram á við til frekari uppbyggingar. Þessi framtíðarsýn sést meðal annars vel í nýlegri yfirlýsingu um uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu en með henni er verið að undirstrika mikilvægi heilbrigðiskerfisins og styrkja enn frekar heilbrigðisþjónustu í landinu. Mikilvægt er þó að skoða leiðir sem hafa það markmið að efla heilbrigðisþjónustuna. Ég tel að við eigum að vera opin fyrir þeim hugmyndum á meðan það er til bóta fyrir alla, að allir hafi jafnt aðgengi óháð búsetu, stöðu eða efnahag.