144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[15:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það voru tvær fullyrðingar í ræðu hv. málshefjanda Svandísar Svavarsdóttur sem ég vil gera smá athugasemdir við.

Sú fyrri er sú að 80% þjóðarinnar vilji að ríkið reki alla heilbrigðisþjónustu. Ég er ekki viss um að það sé meiri hluti fyrir því í íslensku samfélagi að ríkið taki allar meðferðarstofnanir SÁÁ, Hlaðgerðarkot, Reykjalund eða sjúkraflutninga og fari að reka það sjálft. Það er enginn áhugi fyrir því í íslensku samfélagi.

Í öðru lagi er einkarekstur auðvitað ekkert einkavæðing í eiginlegum skilningi eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson fjallaði um áðan. Þetta er bara spurning um að fá sem besta þjónustu og mesta fyrir sem minnstan pening. Undir vissum kringumstæðum getur vel verið að það sé gott að ríkið geri það, í öðrum tilvikum getur verið hagstæðara að einhverjir einkaaðilar sjái um það eins og þeir hafa gert margir hverjir með afbragðsárangri áratugum saman. Þetta er eiginlega ekkert flóknara en það. Ég held að við eigum ekki að hafa áhyggjur af því og nota gömlu frasana sem maður las fyrir 35 árum í Þjóðviljanum og Neistanum, að menn hafi eitthvað að féþúfu eða hagnist á einhverju. Þetta er spurning um á hverju skattgreiðendur hagnast, þeir sem borga fyrir þjónustuna sem við erum öll sammála um að þurfi að veita.

Þessar gömlu ræður hafa ekkert breyst. Ekkert breyst, (Forseti hringir.) þrátt fyrir gjörbreytingu á íslensku samfélagi til mikillar batnaðar alla þessa áratugi. (SII: Græðgin er söm við sig.)