144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

einkavæðing í heilbrigðiskerfinu.

[16:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég svara því strax að það er ekki ætlun þess sem hér stendur að gera heilsuleysi og sjúkdóma að féþúfu, það held ég að enginn hafi áhuga á að stunda, hvar sem í pólitík hann er, það er ekki þannig.

Þessi umræða hefur á margan hátt verið mjög góð. Að vísu vekur það mér dálitla undrun með hvaða hætti sérstaklega formaður velferðarnefndar fer í þessa umræðu um hin fjölbreyttu rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni, þó ekki væri nema fyrir þá pólitík sem Samfylkingin rak á kjörtímabilinu 2007–2011. Í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar þá stóð, með leyfi forseta:

„Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum.“

Þannig að ágæt samstaða hefur verið um þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar meðal íslenskra stjórnmálaflokka. Ég vil einfaldlega halda því til streitu. Það má heldur ekki gleyma því að undirrót þess sem verið er að vinna á vettvangi heilbrigðisráðherra um breytingar í heilbrigðisþjónustunni byggir á vinnu sem var sett í gang árið 2011 af þáverandi velferðarráðherra, Guðbjarti Hannessyni, og það er skýrsla Boston Consulting Group. Þar kemur meðal annars fram ein tillaga sérstaklega, eftir skoðun sextíu sérfræðinga, sem kveður á um það að fyrirkomulag á greiðslu til veitenda heilbrigðisþjónustu skuli endurskoðuð með sveigjanleika, hagkvæmni og gæði að leiðarljósi.

Þannig að grundvallaratriðið í því sem ég er að segja um að rekstrarformið skipti ekki máli, er að þegar við höfum vegið og metið kostnað við rekstur, gæði og öryggi þjónustunnar sem veita á þá skulum við taka ákvörðun um það hvernig við nýtum þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru til að lækna og líkna fólki.