144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

framlög til háskólastarfs.

255. mál
[16:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Þann 17. júní árið 2011 samþykktu þáverandi ríkisstjórn og Alþingi að stofna aldarafmælissjóð Háskóla Íslands, eins og hv. þingmaður vék að í fyrirspurn sinni. Markmiðið með stofnun sjóðsins er að efla rannsóknir og nýsköpun sem nýtast munu til uppbyggingar atvinnulífs og verðmætasköpunar í þágu íslensks samfélags og þjóðar. Samningur um aldarafmælissjóð Háskóla Íslands er sérstakur viðauki við samning mennta- og menningarmálaráðuneytisins um kennslu og rannsóknir Háskóla Íslands á tímabilinu árið 2012–2016. Við stofnun sjóðsins var skipaður sérstakur starfshópur með fulltrúum frá Alþingi, forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Háskóla Íslands til að meta og gera tillögur um framlög í sjóðinn á árunum 2012–2020. Lauk hann störfum með sérstakri skilagrein og tillögugerð um framlög í aldarafmælissjóð Háskóla Íslands árið 2012–2020. Þáverandi ríkisstjórn samþykkti á fundi sínum þann 7. október 2011 eftirfarandi tillögu, með leyfi virðulegs forseta:

„Lagt er til að ríkisstjórnin samþykki tillögu starfshóps um að fjárframlög til aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands verði 150 millj. kr. árið 2011, 250 millj. kr. árið 2012, 400 millj. kr. árið 2013 og 700 millj. kr. árið 2014. Jafnframt að árið 2013 verði unnin áætlun um framlög í aldarafmælissjóðinn fyrir árið 2015–2020 með hliðsjón af hagvexti hér á landi og stöðu ríkisfjármála.“

Ég vil vekja athygli á niðurlagi tilvitnunar sem er hefðbundin, að tekið sé tillit til hagvaxtar og stöðu ríkisfjármála við slíkar ákvarðanir. Framlög áranna 2011–2014 hafa verið í samræmi við ofangreinda samþykkt þáverandi ríkisstjórnar og er óþarfi að tíunda það frekar.

Háskóli Íslands skilar samkvæmt ákvæðum samnings um aldarafmælissjóð mennta- og menningarmálaráðuneytinu skriflegri greinargerð fyrir 1. október ár hvert um hvernig Háskóli Íslands miðaði við að ná þeim markmiðum sínum. Við mat á árangri Háskóla Íslands er fylgt þeim hlutlægu mælikvörðum sem fram koma í skilagrein og tillögugerð starfshóps um framlög í aldarafmælissjóð Háskóla Íslands árið 2012–2020 og þeirra markmiða sem fram koma í stefnu Háskóla Íslands 2011–2016.

Markmið aldarafmælissjóðs var að framlag á nemanda við Háskóla Íslands mundi ná meðaltali OECD-ríkja árið 2016 og meðtaltali Norðurlandanna árið 2020. Við mat á árlegu framlagi í sjóðinn skyldi höfð hliðsjón af því hvernig miðar í sókn Háskóla Íslands að markmiðum sínum eins og þau eru sett fram í stefnu skólans og í samræmi við áætlun og jöfnuð í ríkisfjármálum á framangreindu tímabili. Í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs er lagt til að unnið verði að áætlun um fjármögnun háskólastarfs til ársins 2020 er miði við ofangreint markmið um fjármögnun Háskóla Íslands. Á vegum forsætisráðuneytisins hefur verið skipaður starfshópur til að fjalla um framlög til sjóðsins árið 2016–2020.

Þrátt fyrir að tafir hafi orðið á að starfshópurinn hæfi störf gerir fjárlagafrumvarpið 2015 ráð fyrir óbreyttri fjármögnun á árinu 2015 hjá aldarafmælissjóðnum, þ.e. áfram 700 millj. kr., og gildistími viðaukans því framlengdur um eitt ár.

Vík ég nú að síðari spurningu hv. þingmanns. Innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins er nú unnið að heildstæðri stefnumótun til fimm ára fyrir málefnasviðið háskólar og vísindastarfsemi, þ.e. til ársloka 2019, sem hefur að markmiði að auka skilvirkni, samþættingu, árangur og gæði innan kerfisins. Stefnumótun ráðuneytisins er meðal annars til þess fallin að ráðuneytið geti lagt stefnuna til grundvallar þátttöku sinni í mótun stefnu í vísindum og tækni á vettvangi Vísinda- og tækniráðs sem tekur til ólíkra þátta æðri menntunar, rannsókna og nýsköpunar og stoðaðila málaflokksins í kerfinu sjálfu. Meðal þess sem horft er sérstaklega til í ofangreindri stefnumótun ráðuneytisins er opinber fjármögnun háskóla og rannsókna, en þar að auki fjármögnunar sem slíkrar er horft til ólíkra leiða við fjármögnun háskóla og rannsókna, stjórntækja og hvata. Í stefnumótun ráðuneytisins er unnið í fimm vinnuhópum og ber einn þeirra heitið Fjármögnun málaflokksins.

Gert er ráð fyrir að vinnu við ofangreinda stefnumótun ráðuneytisins verði lokið á næstu vikum. Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs hefur verið gerð grein fyrir þeirri vinnu sem nú fer fram í ráðuneytinu og tengslum hennar við aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs. Gert er ráð fyrir samráði við fagaðila, þar með talið háskóla, rannsóknastofnanir og Vísinda- og tækniráð, við greiningu helstu áskorana sem kerfið stendur frammi fyrir.

Á grundvelli stefnumótunar mennta- og menningarmálaráðuneytisins verða skilgreindar megináherslur um breytingar næstu fimm árin. Þegar megináherslurnar og forgangsröðun liggja fyrir verður unnið að verkefnaáætlun þar sem gert er ráð fyrir fyrirhuguðum breytingum ásamt fjármögnun.

Tímabilið september til desember 2014 var unnið að gagnaöflun um meðal annars fjármögnun kerfisins, alþjóðlegan samanburð, samantekt á ábendingum úr til að mynda skýrslu Vísinda- og tækniráðs, Nýrri sýn frá 2012, Taxell-skýrslunni frá 2009, ERAC-skýrslunni frá 2014 og (Forseti hringir.) skýrslu rýnihóps menntamálaráðuneytisins 2009 og fleira. Tímabilið janúar til mars 2015 var unnið að og hefur verið unnið að frekari greiningu, helstu áskorunum á kerfið o.s.frv. Síðan verður (Forseti hringir.) apríl til júní unnið að aðgerðaáætlun fyrir þær megináherslur sem birtast í þessari vinnu.