144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

framlög til háskólastarfs.

255. mál
[16:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og nafnið gefur til kynna var aldarafmælissjóðnum komið á laggirnar í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands. Háskóli Íslands er ein af meginstofnunum íslensks samfélags, stærsti háskóli landsins með fjölþætt fræðasvið og aldarafmælissjóðurinn var leið til að bæði fagna afmælinu en ekki síður til að efla vísindastarfið við háskólann og þrótt vegna áfalls hrunsins og áhrifa þess á fjármögnun háskólans og rannsókna þar.

Hæstv. ráðherra var hér með langa ræðu með gríðarlega mörgum staðreyndum. Það sem mér finnst skipta máli er hvort ráðherra sé ekki að vinna að því að efla háskólastigið og þá ekki síst Háskóla Íslands til þess að tryggja stöðu hans og að það leiki enginn vafi á því að markmiðið (Forseti hringir.) sé að sjálfsögðu að háskólinn verði áfram fyrst og fremst fjármagnaður af skattfé.