144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

framlög til háskólastarfs.

255. mál
[16:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Sem unnandi Háskólans á Akureyri get ég ekki annað en tekið undir með hv. síðasta þingmanni sem hér talaði, Valgerði Gunnarsdóttur. Ég hef alltaf stutt þann háskóla, ég held að hann sé miklu betri háskóli en menn gera sér almennt grein fyrir, en það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, undirstaða þess að hann eflist að þrótti er fjármagn til rannsókna. Það er ég viss um að hæstv. menntamálaráðherra skilur mætavel.

Ég kem aðallega hér upp til þess að þakka hæstv. ráðherra fyrir það að fylgja einarðlega eftir þeirri stefnu sem mótuð var í tíð síðustu ríkisstjórnar um það að árið 2020 yrði fjármagn til rannsókna við Háskóla Íslands orðið svipað á hvern nemanda og gera má ráð fyrir að verði þá við háskólana almennt á Norðurlöndunum. Það skiptir miklu máli. Ég vil líka undirstrika að ég tel að Háskóli Íslands hafi staðið sig ákaflega vel, siglt vel í gegnum erfiða tíma. Hann er núna á lista yfir topp 300 bestu háskóla í heiminum og það er í sjálfu sér kraftaverk að (Forseti hringir.) hafa tekist það við þann mótbyr sem var á síðustu árum og miðað við smæð þjóðarinnar. En það ber að þakka og ég veit, herra forseti, að hæstv. menntamálaráðherra mun (Forseti hringir.) slá heldur í en draga úr í rannsóknastarfi.