144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfshópur um myglusvepp.

488. mál
[16:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt sem þingmaðurinn gat um að umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði þann 10. júní sl. starfshóp til þess að taka til endurskoðunar lög og reglur á sviði byggingarmála með tilliti til myglusvepps og þess tjóns sem hann getur valdið. Starfshópinn skipa sérfræðingar úr ráðuneytinu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun og Félagi byggingarfulltrúa auk eins þingmanns Framsóknarflokksins.

Brýnt er að þverfagleg umræða fari fram svo að heildstæð niðurstaða og lausn náist til framtíðar um þetta mikilvæga málefni sem spannar yfir mörg fræðasvið, svo sem byggingarfræði, líffræði og læknisfræði. Starfshópurinn hefur farið vandlega yfir málið þar sem fjallað hefur verið um kröfur byggingarreglugerðar vegna mannvirkjagerða, byggingareftirlits, leiðbeiningar og fræðslu til fagaðila og hollustuhætti varðandi gæði húsnæðis og umhirðu og leiðbeiningar í því sambandi.

Núverandi staða á verkefninu er sú að starfshópurinn er að leggja lokahönd á gerð skýrslu um þetta starf. Auk þess að skipa umræddan starfshóp var unnin lögfræðileg greinargerð um réttarstöðu þeirra sem verða fyrir tjóni af völdum myglusvepps í húsnæði. Greinargerð þessi liggur nú fyrir og þar er fjallað um ábyrgð helstu aðila í þessu sambandi og þær vátryggingar sem eru í boði, bæði lögbundnar og frjálsar. Einnig er til samanburðar við íslenskan rétt fjallað um þær reglur sem gilda í Danmörku, Noregi og Svíþjóð við fasteignakaup og nýbyggingar og þá einkum með tilliti til neytendaverndar.

Ég ítreka að gert er ráð fyrir því að starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum sínum og mögulegum tillögum að úrbótum eigi síðar en í þessum mánuði.