144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfshópur um myglusvepp.

488. mál
[16:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það má segja að myglusveppurinn hafi risið eins og tundurskeyti úr djúpunum hér á síðustu missirum, a.m.k. kom það mér ákaflega á óvart hvað þetta var útbreitt vandamál. Á síðustu missirum kom það mjög glöggt fram að hundruð fjölskyldna áttu um sárt að binda vegna þessa meins. Kannski kom mest á óvart að þetta stakk sér ekki hvað síst niður í tiltölulega nýbyggðum húsum.

Það er mjög gott að heyra það hjá hæstv. ráðherra að nefndin góða er að fara að skila niðurstöðum. Ég hvet hana eindregið til þess að láta ekki bíða að hrinda tillögum hennar í framkvæmd.

Það sem vakir fyrir mér hins vegar með því að koma hingað er að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður bótum til þeirra sem fyrir urðu? Mér skilst á hæstv. ráðherra að sú greinargerð sem liggur fyrir varði einkum og sér í lagi framtíðina, en var það ekki yfirlýst stefna þessarar ríkisstjórnar og undirstrikað í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar að það mundu koma bætur til þeirra (Forseti hringir.) sem hefðu þjáðst vegna þessa og misst stórkostleg (Forseti hringir.) verðmæti?