144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfshópur um myglusvepp.

488. mál
[16:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu umræður sem hér hafa verið og fyrirspurnir. Hér var spurt hvort landlæknisembættið hefði verið tengt þessari vinnu. Nú get ég ekki svarað því algjörlega en eins og kom fram í ræðu minni þá spannar þetta málefni mörg fræðasvið, svo sem byggingarfræði, líffræði og læknisfræði, og ég tel að nefndin hafi haft samband við landlæknisembættið varðandi læknisfræðina.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Kristján Möller gat um, að þetta mun fyrst og fremst snerta tryggingar og tryggingalöggjöf. Þess vegna var náttúrlega reynt að sækja til Norðurlanda hvernig þessi mál standa þar. Ég hef hlerað að tillögurnar í skýrslunni snúi ekki hvað síst að tryggingamálum. Fólk kallar eftir meiri vernd. Það er nú það sem er. Það er alveg rétt, sem einnig hefur komið hér fram, að vissulega eiga margir um sárt að binda út af þessum málum. Mér er tjáð að þegar séu fullnægjandi kröfur í byggingarreglugerð þannig að ekki verði hægt að gera öllu stífari kröfur þar, en þó kom hérna fram að auðvitað væri hægt að einangra meira hús að utan en gert hefur gerið þó að við höfum gert það í auknum mæli á undanförnum árum.

Það sem mun koma fram í skýrslunni er sem sagt fyrst og fremst það sem snýr að tryggingunum og vernd fyrir fólk. Í þessari ágætu þingsályktun kemur einmitt fram að starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum sínum og tillögum að úrbótum, sem ráðherra greini opinberlega frá. (Forseti hringir.) Ég hyggst náttúrlega fara eftir því.