144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

383. mál
[17:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þau mál sem við ræðum hér eru held ég ekki neitt ágreiningsefni. Allir flokkar hafa þetta á stefnuskrá sinni og það hafa verið stigin skref í þá átt, eins og t.d. í lok síðasta kjörtímabils. Ég vil geta þess varðandi það frumvarp sem ráðherra hefur fjallað um og er til vinnslu í nefndinni, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku með síðari breytingu, þ.e. jöfnunargjaldið, að það var hugmynd frá þeim sem hér stendur í nefndinni að við hefðum í raun og veru endaskipti á þessu á þessu ári, við mundum taka þær 240 milljónir sem hæstv. ráðherra segir að þurfi til að jafna húshitunarkostnaðinn og byrja á því strax á þessu ári og taka svo jöfnun dreifikostnaðar þar á eftir, sömu upphæð. Því miður var ekki samþykkt að klára þá vinnu svoleiðis en við munum í nefndaráliti okkar í minni hlutanum gera grein fyrir þessari tillögu sem hefði verið farsælla að fara í vegna þess að það er auðvitað miklu meira kallað eftir því að jafna húshitunarkostnaðinn, sem hér er gerður að umtalsefni. Það hefði verið hægt (Forseti hringir.) að ná samstöðu um málið og klára það fyrir jól ef sú leið (Forseti hringir.) hefði verið farin en það tókst ekki. En guð láti gott á vita, (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra hyggst koma með frumvarp (Forseti hringir.) um þetta núna í vor og vonandi (Forseti hringir.) getum við klárað það.