144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

383. mál
[17:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að við þingmenn komum hér hver á fætur öðrum til að lýsa yfir stuðningi við að húshitunarkostnaður verði jafnaður og bætt úr hjá þeim sem búa við það að borga hátt verð á svokölluðum köldum svæðum.

Mig langar að spyrja bæði málshefjanda og hæstv. ráðherra. Þegar menn voru að tala um þessi mál var skipuð nefnd sem skilaði tillögu um hvernig hægt væri að ná árangri varðandi bæði dreifingu og jöfnun húshitunarkostnaðar. Þar kom fram að tillaga var um að leggja þennan viðbótarkostnað á aðra notendur í landinu, þar með talda stóriðjuna. Nú var fallið frá því sem þýðir að þrefalt gjald er lagt á þá sem eiga að bera þetta, þ.e. almenning, vegna þess að stóriðjan er tekin út.

Mig langar að heyra af hverju menn reyndu ekki að hraða þessu með því að koma með þá gjaldtöku og hafa hana inni, til að tryggja árangur sem fyrst. Þetta skiptir mjög miklu máli. Það eru falleg orð í stefnuyfirlýsingu. Það er klár viljayfirlýsing um að fara í þetta. En af hverju (Forseti hringir.) er verið að hlífa stóriðjunni sem raforkunotanda við því að taka þátt í þessu með okkur? Við (Forseti hringir.) hefðum getað verið búin að ná árangri nú þegar.