144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

383. mál
[17:19]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingheimi og þeim sem tóku til máls fyrir góðar viðtökur við þessu máli. Það er, eins og hefur komið fram, ánægjulegt að heyra þann samhljóm sem heyrist í þessum sal varðandi málið. Ég tek þá hvatningu og brýningu til mín sem ég hef fundið hér og get upplýst að sú þingsályktunartillaga sem ég nefndi er á síðustu metrunum í ráðuneytinu, þannig að ég vonast til að geta komið með hana fljótlega til þings.

Ég vil aðeins bregðast við nokkrum af þeim athugasemdum sem hafa komið fram. Fyrst er það athugasemd frá hv. þm. Kristjáni L. Möller sem talaði um að hafa endaskipti á málinu. Það er alveg rétt lýsing á því. Það var nefnilega verið að hafa endaskipti á máli á síðustu metrum þess sem var lagalega hæpið, að taka upp nýjan skatt, jöfnunargjald, innan laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, þ.e. skatt sem leggst á dreifiveiturnar, en nota síðan tekjurnar til að fjármagna allt annan fjárlagalið sem fellur undir önnur lög. Af þeim sökum og einnig vegna þess að við vorum komin með málið í ákveðið ferli var ekki fallist á þá tillögu þingmannsins. Hún hefði þurft að koma miklu fyrr og er annað mál. Við getum unnið með þetta áfram og sameiginlega náð í mark með bæði málin eins og til stendur.

Varðandi umræðuna um stóriðjuna er þetta ekki í fyrsta sinn sem hún kemur upp. Ástæða þess að stóriðjan er ekki í jöfnunargjaldsfrumvarpinu sem bíður afgreiðslu er sú að stóriðjan er utan dreifiveitnanna. Það hefur komið skýrt fram í máli mínu að þess vegna hef ég ekki tekið hana þar inn. Þetta er mál sem þarf einfaldlega að klára. Ég get fullvissað hv. þm. Össur Skarphéðinsson um að við ætlum svo sannarlega ekki að hætta að leita að vatni og við ætlum ekki að hætta að leita annarra lausna. Síðast í dag var tekin ákvörðun um að skipa nefnd um stórt varmadæluverkefni sem (Forseti hringir.) mun taka þessi mál til heildarskoðunar með það að markmiði að geta (Forseti hringir.) gert verulegar úrbætur í þeim málum til allrar framtíðar.