144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja það sem ég tel vera sannast og réttast. Þetta frumvarp er ekki til að koma landinu til varnar heldur landeigendum til varnar. Verið er að skapa ástand sem gerir það gerlegt.

Sagt er að það sé álitamál hvort heimilt sé að rukka. Ekki telur Umhverfisstofnun svo vera. Ég hélt að það þyrfti ekki annað en læst barn til að lesa náttúruverndarlögin og sjá það þar svart á hvítu að það er óheimilt. Það er heimilt undir þröngum, vissum kringumstæðum og með ákveðnum skilyrðum en ekki almenn gjaldtaka, hún er ekki heimil. Gjaldtakan í Kerinu er lögbrot.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra, fyrst hann sýnir mér þá virðingu að koma hér upp í andsvar og ég þakka fyrir það: Þeir eigendur lands þar sem er að finna náttúruperlur og vilja ekki heyra undir náttúrupassann, verður þeim heimilað að fara sínu fram eins og þegar hefur verið gert af hálfu hæstv. ráðherra ef þessi lög yrðu að veruleika? Hvernig sér hæstv. ráðherra það fyrir sér?

Ég vil að lokum leggja áherslu á að þetta er ólöglegt eins og þetta er núna, það er ólöglegt. Það þarf ekki annað en að lesa lögin. Ég hvet landsmenn til að lesa náttúruverndarlögin, ég held að það sé í 18. gr. þeirra sem það stendur skýrt að gjaldtaka af þessu tagi er óheimil, hún er ólögleg, enda komst Umhverfisstofnun að þeirri niðurstöðu. En það þarf einhverja aðila í ráðuneytum og ríkisstjórn til að túlka þessa skýru lagareglu á einhvern annan veg og það er náttúrlega dapurlegt.