144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um náttúrupassa, mál sem hefur skapað gríðarlega umræðu í landinu og mál sem þegar er komið í veruleg vandræði hjá þeim sem flytja það í þinginu, bæði vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað hér í ræðustól og eins úti í samfélaginu.

Það er enginn ágreiningur um það sem hér kemur fram að við þurfum að bregðast við auknum ferðamannastraumi. Við erum komin með um milljón gesti á ári. Það þýðir aukið álag á vinsælustu staðina á landinu sem kallar á að bæta þurfi aðstöðuna þannig að ekki verði gengið á náttúruna eða hún eyðilögð. Ég tek undir það sem hefur komið fram í umræðunni hér á undan að það er engin ástæða til að tala um þetta sem eitthvert neyðarástand. Það hafa verið lýsingar á því á hverjum stað fyrir sig hvaða svæði séu rauð, ef svo má segja, og Umhverfisstofnun hafi metið að þurfi að lagfæra. Menn hafa brugðist við því en það er augljóst að við viljum öll að betur sé gert til að við getum búið vel að þeim sem hingað koma, sinnt þeim vel og boðið þeim góða þjónustu og öllum sem um landið ganga.

Eitt af því sem er líka áhyggjuefni og við þurfum að hugsa út í er að álagið er mjög mikið á einstökum stöðum en lítið á öðrum stöðum þar sem eru gríðarlega fallegar náttúruperlur. Það er auðvitað áhyggjuefni að okkur hafi ekki tekist að dreifa ferðamönnum, ef svo má segja, um landið og fengið þá til að fara víðar og dreifa þar með þjónustunni betur um landsbyggðina.

Það er forvitnilegt að við skulum vera að ræða hér um gjaldtöku á grein sem hefur vaxið gríðarlega og er orðin einn af máttarstólpunum, einn af burðarstólpunum í efnahagslífi íslenskrar þjóðar. Mér finnst menn stundum ræða það hér eins og af því séu engar tekjur eða eins og hér kom fram áðan hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem talaði um virðisaukaskatt sem útlendingar borga hér eins og skatt á Íslendinga. Við erum með heilmiklar tekjur af þessari grein. Þess vegna erum við líka að leggja áherslu á að nýta landið okkar, menningu og sögu til að laða til okkar fólk sem borgar fyrir þá þjónustu með veru sinni, kaupum á þjónustu o.s.frv.

Það er mjög forvitnilegt og hefur komið fram í umræðunni frá fleirum en einum af hverju við erum að ræða sérstakt gjald, að skoða málið beinlínis þannig. Þegar ég segi það þá er það af sömu ástæðum og hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi hér áðan. Erum við ekki að taka áhættu á því að skapa fordæmi fyrir því að hér megi þeir sem eiga land taka gjald fyrir nánast hvern fermetra af því, vitandi að við erum að fara gegn þjóðlendulögunum? Við erum búin að fara hringinn í kringum landið og margar íslenskar náttúruperlur eru á löndum sem eru skilgreind sem einkaeign. Ætlum við að sætta okkur við að þessi svæði verði lokuð af og féð verði nýtt með einhverjum hætti af þeim sem þau eiga? Hæstv. ráðherra segir nei. Hvernig ætlar hann að komast hjá því ef þetta frumvarp verður samþykkt? Ég kasta þessu fram sem vangaveltum vegna þess að ég verð að segja það hreinskilnislega að ég hef mikið velt því fyrir mér hvort það geti verið að við séum að stíga sama skref og var stigið þegar við fénýttum kvótann, að við afhendum afnotaréttinn og heimildina til að fénýta land til ákveðinna aðila sem þýðir hækkun á verðmæti landareigna, tilbúnir peningar úr engu með tilheyrandi þenslu. Er það það sem við erum að sækjast eftir? Er það hugsanleg afleiðing? Þetta er spurning en ekki fullyrðing en ég sé alveg fyrir mér að þetta geti gerst.

Menn geta hugsanlega sagt eins og ónefndir aðilar gerðu á sínum tíma þegar menn sáu peningana verða til í auðlindum sjávar. Síðan sitjum við uppi með það kerfi. Það er búið að dreifa þeim peningum meira og minna til sömu aðila og þeir fá varanlegan afnotarétt af auðlindunum að því er mér sýnist af núverandi stjórnvöldum. Ég styð ekki þá hugmynd. Ég vil að við höldum í þennan almannarétt, þá hugmyndafræði sem hefur verið og er raunar miklu víðar en hér að almenningur megi ganga um lönd, fara um strandir landsins. Það er óheimilt að girða þær af og loka þeim, þótt þær séu á landi í einkaeigu, nema um sé að ræða nýtingu vegna dúntekju eða einhverra slíkra hluta; það mætti ekki ganga um nytjað land nema með leyfi, en við erum að tala um villta náttúru. Ætla menn virkilega að láta þetta af hendi? Svar mitt er klárt nei. Ég get ekki hugsað mér að við missum stjórnina á þessu. Menn sáu strax þegar málið kom fram að allur einkageirinn er undanskilinn. Í þessu felst meira og minna, eins og hér kom fram í andsvörum milli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að það er allt saman eftir. Við erum hugsanlega með þessu frumvarpi að veita rétt til að fara í gjaldtöku hvar sem er fyrir hvað sem er. Þá er almannarétturinn horfinn. Menn geta vitnað í stjórnarskrá en við skulum horfa á hver praxísinn hefur verið í aldaraðir. Ekki taka þátt í að breyta þessu bara með þessu frumvarpi.

Vilja menn taka gjöld? Það er auðvitað búið að nefna ýmsar aðferðir. Ein aðferð kom hér fram þegar við vorum í vandræðum með að endurreisa samfélagið. Þá var rætt um virðisaukaskattinn. Upphaflega gerist þetta þannig að gengi íslensku krónunnar styrkist mjög mikið og það kostar mikið að koma til Íslands, ferðamannastraumurinn er í lágmarki. Þá lækkuðu menn virðisaukaskattinn úr 14% niður í 7%, fóru með hann í neðsta þrep. Þegar krónan féll svo um helming þá ákváðu menn að nota tækifærið og fara aftur í gamla horfið. Hvað gerðist? Stjórnarandstaðan á þeim tíma, núverandi stjórnarflokkar, barðist með kjafti og klóm og af mikill óbilgirni gegn þeirri hækkun. (PHB: Bæta það upp?) Það var ekki spurning um virðisaukaskattsþrep á þeim tíma, upphaflega var skatturinn 14%.

Það er út af fyrir sig ótrúlegt líka að með allri tölvutækninni, allri eftirfylgninni, öllu því sem við höfum lært sé alltaf flóknara og flóknara að halda utan um hlutina, en það er ekki þannig. Það er enginn vandi að hafa fleiri þrep. Við vissum það aftur á móti líka að á þeim tíma þegar menn voru með virðisaukaskatt af þessari þjónustu í 7% þá þurfti að greiða til ferðaþjónustunnar vegna mismunarins á efra þrepi og því lægsta. Þetta hefur núverandi ríkisstjórn tekið upp og viðurkennt að það hafi verið mistök að taka ekki mark á þessu á sínum tíma, en fór þá upp í 11%. Þá taka menn verulegar tekjur af ferðaþjónustunni. Það er gott. Ég held að það sé nauðsynlegt að hún taki þátt til jafns við aðrar atvinnugreinar í landinu í kostnaðinum sem fylgir því að reka starfsemina.

Aðrar leiðir sem hafa verið nefndar er gistináttagjaldið. Það mætti mikilli andstöðu á sínum tíma en svo var sæst á að taka mjög lágt gjald. Þetta lága gjald skilar ríkissjóði 250–300 millj. kr. á ári. Hugsið ykkur það í samhengi við það sem núverandi ríkisstjórn setur í endurbætur á ferðamannastöðum á þessu ári í fjárlögum, sem eru 145 milljónir miðað við þetta frumvarp og upplýsingar um hvernig þetta er. Það er allur bráðavandinn sem á að leysa. Og halda að ferðamannapassinn verði búinn að borga þetta á þessu ári — það verða að koma til peningar á ákveðin svæði óháð þessu frumvarpi.

Að vísu verð ég að segja að ef ég færi til Rómar þyrfti ég að borga gistináttagjald. Ég hef farið til Madríd og þar er gistináttagjald. Við borgum gistináttagjaldið um allan heim. Hér komu ágætishugmyndir um að gjaldið mætti vera mismunandi hátt eftir því hvers eðlis gistingin væri, þ.e. menn borguðu minna á tjaldstæðum, gistiheimilum og öðru slíku en á fimm stjörnu hótelum. Allt þetta mætti auðvitað skoða.

Síðan hafa menn rætt komugjöldin. Ég kaupi ekki að við getum ekki haft komugjöld á ferðalög frá útlöndum til Íslands. Menn segja: Það verður að borga komugjald í innanlandsfluginu. Fram hefur komið ábending um að þar séu gjaldtökur nú þegar og þá er spurning hvort þær séu ekki fullnægjandi gagnvart því sem þarf til að uppfylla að jafnræðis sé gætt.

Í þriðja lagi hefur fólk bent á það mjög víða í umfjöllun um þetta mál hvort ekki sé full ástæða til að skoða hvort engin réttarstaða sé fólgin í því að vera skattborgari í landinu og greiða gjöld til þjónustunnar almennt umfram þá sem koma og njóta til skamms tíma. Mér finnst ég ekki hafa fengið fullnægjandi svör við því. Flokkar sem hafa oft reynt að verja sig gagnvart útlendingum ættu að skoða það örlítið betur og átta sig á því hvort það sé hægt.

Það er sem sagt fullt af álitamálum sem þetta frumvarp svarar ekki. Það er auðvitað mjög leitt eftir alla vinnuna og viðleitnina og þá virðingu fyrir því að við þurfum eitthvað að gera í málinu frá öllum stjórnmálaflokkum að niðurstaðan skuli hafa orðið sú að menn hafi einhvers staðar á leiðinni misst niður samningaviðræður við hagsmunaaðila og þá sem koma að þessu máli. Það hefur orðið gjá þarna á milli og ráðherra stendur einn eftir með tillöguna í andstöðu við greinina. Það finnst mér í sjálfu sér sorglegt af því að við þurfum á því að halda að finna lausn sameiginlega, hvort sem það er að fara almennt í gegnum skattana eða með gistináttagjaldi eða komugjöldum ef það er hægt.

Ég ítreka það sem ég hóf ræðu mína á: Hugsum þetta til enda. Hvað viljum við í sambandi við heimildir fyrir því hvar við megum ganga? Má ég fara á fjallstinda? Þarf ég að spyrja landeiganda leyfis til að fara á fjallstind? Við fáum engin svör við því í þessu frumvarpi. Við fáum ekki svör við því hvaða staði eigi að leggja undir. Hæstv. ráðherra hefur sagt í viðtölum að þetta verði ekki nema 10–12 staðir. Hvaða staðir? Það stendur ekkert um það. Það er heldur ekki búið að taka á því hvað verður annars staðar.

Það er líka verið að tala um hvernig eigi að framkvæma þetta. Menn hafa gert virðingarverða tilraun til að gera þetta rafrænt þannig að hægt sé að staðfesta að menn hafi greitt fyrir passa með því að sýna það í síma eða með öðrum rafrænum hætti. Á sama tíma eiga að vera einhverjir verðir á staðnum þó að það sé ekki nema eitt stöðugildi í þessu frumvarpi. Einhverjir náttúrupassarar eiga fara um landið og passa það. Hver er staða þeirra? Þetta eru ekki lögregluþjónar. Hvað gerist ef menn neita að tala við viðkomandi, segja bara: Ég tala ekki við þig, ég sé ekki hver þú ert. Þú hefur engan rétt til að stoppa mig. — Hvernig ætla menn þá að sekta eins og hér er gert ráð fyrir? Hvernig ætla menn að flokka það ef menn borga þetta ekki í byrjun? Nú eru þetta ekki stórar upphæðir, ég ætla að taka það fram, en þetta er viðbótarupphæð.

Þetta er dæmigert fyrir það sem mér finnst hafa einkennt þessa ríkisstjórn, eins og raunar fyrri ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Menn hæla sér af því að lækka skatta en sækja sömu tekjurnar með gjaldtöku. Hver er munurinn? Jú, það eru að vísu trúarbrögð hjá sumum að ef maður borgi fyrir eitthvað þá sé það betra en að borga það almennt. Best sé ef það renni í vasa einkaaðila því að þeir kunni að fara betur með peningana. Þetta eru trúarbrögðin sem við búum við. Framsókn hengir sig á þessi trúarbrögð með Sjálfstæðisflokknum. Það er þetta sem ég óttast. Ég er algerlega ósammála þessari hugmyndafræði. Ég treysti mér alveg til borga gjöld og ég treysti mér til að taka þátt í því að borga fyrir íslenska náttúru. Mér finnst sjálfsagt að útlendingar sem koma hingað greiði fyrir það með einhverjum hætti, eins og ég hef nefnt, hvort sem er með gistináttagjaldi eða komugjaldi, en við eigum ekki að þurfa að sitja uppi með þá niðurstöðu að landinu verði meira og minna lokað og fénýtt af þeim sem eiga svæðin. Það er ekki sú sýn sem ég vil fyrir Ísland. Sjálfur hef ég ekki verið talsmaður þjóðnýtingar og tel að ekki eigi að taka lönd af mönnum en aftur á móti eigum við að skilgreina almannaréttinn mjög skýrt. Það þyrfti að vera í lögum hver túlkun löggjafans væri á því hvaða lönd ættu að vera opin og hvaða ákvæðum þau skyldu sæta. Þetta hefur verið í náttúruverndarlögum og var skilgreint líka í nýju náttúruverndarlögunum sem var raunar frestað og eru til umfjöllunar í þinginu. Tökum ákvæði um hverjir megi nota landið, hvar og hvernig skýrt upp og látum svo gjaldtökuna koma án þess að það breyti þeirri hugmyndafræði.

Ég held því miður að þessi tilraun með náttúrupassann sé dæmd til að mistakast. Hún kallar á að málið verði hugsað upp á nýtt og leitað verði samstöðu með hvaða hætti eigi að gera það. Ég held að menn eigi að svara þinginu og í nefnd sem um málið fjallar hver ágóðinn sé af ferðaþjónustunni. Hvar eru tekjurnar? Hverjir eiga að borga? Hve mikið borga útlendingarnir? Hvernig verða margfeldisáhrifin í kerfinu? Auðvitað þurfum við líka að vinna gegn svarta hagkerfinu. Þarf þá að sækja þennan milljarð með einhverjum öðrum hætti en í gegnum (Forseti hringir.) ávinninginn af ferðaþjónustunni?