144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:15]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Síðustu orð hv. þingmanns, að það megi vel vera að landeigendur vilji nýta sér þetta, eru mér ekki nóg. Ég vil nefnilega ná utan um þetta í heild með þeim lausnum sem við erum að finna varðandi náttúrupassa eða einhverja aðra lausn í sambandi við gjaldtöku, viðhald og endurnýjun á ferðamannastöðum. Auðvitað er það misjafnt hversu mikinn aðgang viðkomandi aðilar hafa en það er líka hægt að hugsa sér það að menn loki hreinlega ákveðnum svæðum sem hefur hingað til ekki þótt réttlætanlegt nema menn séu að verja að einhverju leyti ræktuð lönd eða búfénað eða eitthvað slíkt.

Varðandi það að eignarrétturinn og almannarétturinn rekist á — ég er einmitt að vara við þessu frumvarpi af því að verið er að búa til þann árekstur. Ég tel að í frumvarpinu sé verið að skilgreina eignarréttinn fram yfir almannaréttinn. Þar með er löggjafinn búinn að gefa sína túlkun á því. Þannig virkar þetta á mig. Það kann að vera að ég hafi rangt fyrir mér, en ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum ekki að tjá okkur um hvaða vilja við höfum og bíða eftir dómstólum. Við áttum einmitt að hafa skoðun, við áttum einmitt fyrir löngu að vera búin að setja þetta inn í stjórnarskrá, þ.e. réttinn í sambandi við sameiginlega nýtingu á landi, en það er náttúrlega eins og ýmislegt annað sem má ekki setja inn í stjórnarskrá. Það hefur gengið mjög illa þrátt fyrir mikinn vilja þjóðarinnar og einlægan vilja þess sem hér stendur og míns flokks að koma til dæmis auðlindaákvæðinu inn í stjórnarskrá. Það hefur ekki tekist og oft verið orðaleiksslagur í sambandi við það. Gagnstætt því sem hér segir þá segi ég einmitt að það þarf að hindra árekstur milli eignarréttar og almannaréttar með því að tryggja almannaréttinn en jafnframt að viðkomandi aðilar eigi sín lönd eftir sem áður og geti nýtt þau til starfsemi sinnar að öðru leyti án þess að selja aðgang að náttúruperlum.