144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:47]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Jú, ég held að það sé akkúrat málið, hv. þingmaður, og akkúrat leiðin sem ráðherra hefur lagt upp með, að við sameinumst um að finna nothæfa leið. Mér þætti ekki ólíklegt að niðurstaðan yrði einhver blanda miðað við þekkinguna sem ég hef á frumvarpinu núna og á þeirri vinnu sem farið hefur fram áður, en auðvitað veit maður það aldrei fyrir fram hvert vinnan leiðir okkur.

Mér þætti gaman, af því að ég á orðastað við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að fá hans sýn betur á einmitt þessa fáförnu staði eða fáfarnari staði. Með hvaða hætti er hægt að fyrirbyggja skemmdir á náttúrunni þar? Það eru ekki endilega staðir þar sem farið verður að byggja útsýnispalla eða koma upp trétröppum eða slíkum göngustígum, þetta eru einstakir staðir á Vestfjörðum, staðir á hálendinu eða annars staðar þar sem gróður er mjög viðkvæmur, kannski bara mosi. Hvernig getum við nálgast þann vanda?