144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir ræðuna. Ég tók einmitt eftir því að hv. þingmaður velti upp í máli sínu ýmsum spurningum sem eru ekkert ósvipaðar þeim spurningum sem hafa vaknað hjá mér þegar ég hef verið að kafa ofan í þetta og skoða frumvarpið. Það eru örfá atriði sem mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í því að mér fannst yfirferð hennar, sérstaklega hvað varðar 2. gr. frumvarpsins svo og 4. gr., mjög góð. Mig langar að spyrja hv. þingmann þegar hún segir niðurstöðuna eins konar blöndu eða blandaða leið, hvort innan þeirrar sýnar rúmist einhvers konar breytt afbrigði af náttúrupassa þar sem við værum þá með einhvers konar gjaldtöku við almenna ferðamannastaði eða hvort hún hafi verið að vísa algjörlega í aðrar leiðir, svo sem gistináttagjald, aðeins til að glöggva mig betur á því. Og svo hreinlega hvort hv. þingmaður telji miðað við þá vankanta sem hún taldi upp í máli sínu, það tengist í rauninni svarinu við hinni spurningunni: Telur hv. þingmaður að hægt sé að lappa upp á þetta frumvarp eða þurfum við að byrja alveg frá, ekki alveg grunni en að hugsa málið aftur með algjörlega öðrum hætti en hér er gert?