144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttir fyrir svörin og tek undir með henni að ég hef einmitt líka áhyggjur af þessari praktísku útfærslu með til að mynda bara eitt stöðugildi. Í mínum huga gengur þetta ekki alveg upp, en það er annað atriði sem mig langar aðeins að koma inn á í síðara andsvari mínu. Í umsögn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur fram að ekki liggi fyrir heildarstefna stjórnvalda um hvaða staði í umsjón ríkis og sveitarfélaga eigi að byggja upp sem ferðamannastaði og að við séum að bíða eftir fyrirhuguðu frumvarpi frá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Hvernig sér hv. þingmaður þetta? Erum við ekki að byrja pínulítið á öfugum enda? Hefðum við ekki þurft að vera komin með þetta frumvarp til að vita hvaða skref hæstv. ráðherra sér fyrir sér að stíga inn í framtíðina? Svo að ég tali fyrir mig finnst mér við hérna vera að fara í öfuga átt og vera að stíga ákveðin skref inn í blindni og svo í framtíðinni verði þetta nánar skilgreint með öðru frumvarpi frá öðrum hæstv. ráðherra.