144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur runnið upp fyrir mér að það verður ekki nokkur vandi fyrir okkur sem sitjum á hinu háa Alþingi að ná sameinaðri lausn í þessu máli. Ég ræð það eftir að hafa hlustað á þær stólparæður sem hér hafa verið fluttar af þingmönnum Framsóknarflokksins í dag að það er verulega mikill samhljómur með þeim og mörgum sem hafa tjáð sig bæði hér á þinginu og líka utan þings, þannig að ég er viss um að við náum lendingu.

Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður kallaði stóru myndina og lýsi mig reiðubúinn til þess að taka þátt í lausn á þessu máli. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður talaði um varðandi flækjustig þeirrar leiðar sem hér er farin og sömuleiðis varðandi reglugerðafarganið sem kann að hljótast af öðrum ákvæðum en beinlínis því sem lýtur að sjálfum reisupassanum.

Hv. þingmaður sagði líka undir lok síns góða máls að hann væri þeirrar skoðunar, eða hann var það að minnsta kosti, að fara ætti svokallaða blandaða leið til þess að afla þess fjármagns sem þarf til þess að byggja upp ferðamannastaði. Ég held að flestir, og hugsanlega ráðherra núna, hún var það ekki í upphafi, séu reiðubúnir til þess að skoða það. Ég hef sagt að ég er reiðubúinn til þess að skoða blandaða leið. En hv. þingmaður sagði líka að til væri kerfi sem eru í notkun sem hafa dugað — ég skildi það svo að hann ætti við gistináttagjaldskerfið. Þau hafi þó ekki skilað þeim upphæðum sem menn tala um hér. Hægt er að ráða bót á því. Stallsystir hv. þingmanns kom meira að segja hér fyrr í dag með ágætar hugmyndir um skiptingu á slíku gjaldi.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki að farsælasta lausnin í þessu máli liggi einmitt í því að útfæra gistináttagjaldið (Forseti hringir.) og sníða af því skafanka?