144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:16]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir spurninguna. Hún var skýr og einföld og snýr að gistináttagjaldinu. Það er kerfi sem er til staðar og var reyndar kostnaðarsamt að því koma á í upphafi en búið er að útfæra það betur. Spurningin snýr að því hvort við eigum ekki að halda áfram með gistináttagjald og sníða af því hvers konar agnúa sem mögulega eru á því. Ég veit um þá. Ég hef heyrt í bókurum sem kvarta undan þessu gjaldi, að það mætti vera hærra, og eins varðandi það sem snýr að uppgjöri á virðisaukaskatti, þeir þekkja það gerst hvernig það kemur út í kerfunum og það gerir ríkisskattstjóri líka.

Ég hygg að það sem skiptir mestu máli fyrir vöruna sem við ræðum hér og útfærslu á leið sem skilar þeim tekjum sem þarf til uppbyggingar og viðhalds á ferðamannastöðum til lengri tíma og í bráð — sem er mjög brýnt vegna þess að fjölgun ferðamanna hefur verið svo mikil — séu eftirspurnaráhrifin varðandi staka þætti kjarnaþjónustunnar, þ.e. gistinguna, flugið og flutninginn. Talað hefur verið um komugjöld. Blandaða leiðin fælist þá í lægri gjöldum sem hefðu vægari áhrif á eftirspurnina, gistináttagjald, komugjöld, jafnvel gjald fyrir bifreiðastæði. Hæstv. ráðherra hefur talað um tíu, tólf náttúruperlur. Mögulega mætti gera einhvers konar útfærslu á passanum og þá held ég að það mundi dreifa sér á alla þjónustuþætti vörunnar.