144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ágæta ræðu, þótt hún hefði mátt vera pínulítið uppbyggilegri. Hún gat þess að markmiðið væri að reyna að ná í fjármagn til þess að bæta þann skaða sem náttúran hefur orðið fyrir og mér finnst skorta dálítið á í þessari umræðu að menn komi með hugmyndir til þess.

Hv. þingmaður fór í gegnum kostnað einkaaðila af því að innheimta gjald af landi sínu eða náttúruperlum á landinu. Það hefur verið rætt hérna áður. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er eitthvað í frumvarpinu sem breytir þeirri réttaróvissu sem er uppi í dag með það hvort menn megi innheimta gjald t.d. af Kerinu eða öðrum einkaeignum sem þeir eru með? Er eitthvað í frumvarpinu sem breytir því að menn fari allt í einu að segja að það sé komin betri réttarstaða fyrir þá sem eiga þessa staði og eru verndaðir með eignarréttinum?

Síðan er spurningin sem hv. þingmaður svaraði ekki: Hvað kostar það einkaaðila að innheimta gjald, til dæmis af Kerinu? Hvað þarf fólk að vera lengi þar í skúr til þess að innheimta? Hvaða laun þarf það að fá? Það er væntanlega vaktavinnufólk, það dugar ekki að vera bara í dagvinnu við að innheimta því túristar koma á ýmsum tímum, líka um helgar. Þannig að sú innheimta getur orðið æðidýr. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því.

Síðan sagði hún að fólk mundi vega það og meta hvort það borgaði 1.500 kall eða ekki. Hv. þingmaður hefur ekki mikla trú á heiðarleika venjulegs fólks. Hann er nefnilega umtalsverður. Fólk vill gjarnan borga og standa við reglur og standa við sitt.