144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Málefni Reykjavíkurflugvallar eru í fullkominni óvissu sem er óásættanlegt að mínum dómi. Það er ekki ásættanlegt að braut 06-24, sem einnig hefur verið nefnd neyðarbraut í umræðunni, verði lokað til að þar megi byggja íbúðarhús.

Þeir hagsmunir sem verið er að fórna með þeirri ráðstöfun eru einfaldlega allt of miklir. Það mun þrengja verulega að sjúkraflugi og þar með auka þá áhættu sem við leggjum á sjúka sem þurfa að komast á eina hátæknisjúkrahús landsins sem fyrirhugað er að byggja við hliðina á flugvellinum. Samsvarandi neyðarbraut í Keflavík mundi þýða um klukkustundar ferðatíma í viðbót áður en sjúklingurinn kæmist á sjúkrahús. Með braut 06-24 er hægt að hefja sjúkraflug við erfið veðurskilyrði sem ekki væri hægt að fara annars. Öllum sem tengjast flugsamgöngum ber skilyrðislaust að láta öryggi njóta alls þess vafa sem upp kann að koma auk þess að gera ráð fyrir verstu mögulegu uppákomum. Auk þess býður brautin upp á að hún sé notuð í ákveðinni vindátt, og slíkt getur skipt máli þegar verið er að flytja illa slasað fólk, t.d. með alvarleg beinbrot, eða konur sem hafa misst vatnið fyrir barnsburð og mega ekki við neinu hnjaski. Ég skil ekki að deilur standi um þetta mál, innviði samfélagsins sem hafa breyst í þá veru að LSH gegnir æ stærra hlutverki, og að menn krefjist þess ekki hreinlega að flugvöllurinn verði um kyrrt og hann verði treystur í sessi en ekki hið gagnstæða, auk alls hins sem mælir með því að flugvöllurinn fái að vera um kyrrt.