144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Sigurður Örn Ágústsson (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins að umfjöllunarefni, en hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins er að efla lífsgæði og bæta framtíð barna og unglinga með þroskaraskanir sem leitt geta til fötlunar.

Helstu fatlanir barna sem leiða til tilvísunar á greiningarstöðina eru þroskahömlum, einhverfa, hreyfihömlun og blinda. Stofnunin veitir sérfræðiráðgjöf til barna, foreldra, leik- og grunnskóla og ráðgjafarþjónustu sveitarfélaga. Meginviðfangsefni stofnunarinnar er að veita sérhæfða ráðgjöf. Að meðaltali er um 300 börnum vísað til greiningarstöðvarinnar á ári, þar af eru um 60 vísað frá árlega vegna þess að stofnunin annar ekki öllum hópnum við núverandi aðstæður. Þetta þýðir að umtalsverður hópur fatlaðra leikskólabarna nýtur skammvinnrar ráðgjafar eftir greiningu og þau sem fá þó slíka ráðgjöf eru í þörf fyrir mun meiri ráðgjöf.

Snemmtæk íhlutun er það kallað þegar reynt er á markvissan hátt að hafa áhrif á þroskaframvindu barna með frávik í þroska eins snemma og unnt er á lífsleiðinni. Mikilvægt er að íhlutunin hefjist sem fyrst eftir að frávik í þroska greinist. Það getur haft mjög mikil áhrif á lífsgæði viðkomandi að bæði greina stöðuna rétt snemma og enn frekar að bregðast við nægilega fljótt.

Innan greiningarstöðvarinnar er sérhæfð þekking á frávikum í taugaþroska barna, t.d. einhverfu og þroskahömlun. Atferlisíhlutun er ekki til staðar á flestum leikskólum eða hjá ráðgjafarþjónustu sveitarfélaga, en við núverandi aðstæður nær stofnunin ekki að sinna þessu svo vel sé. Í dag þarf stofnunin að ákvarða að taka ekki við börnum sem starfsmenn hennar meta með vægari röskun, ekki vegna þess að ekki sé talin ástæða til að veita þjónustuna heldur vegna þess að þyngri mál hafa forgang.

Ég hvet hæstv. félagsmálaráðherra til að tryggja með öllum tiltækum ráðum að okkar varnarlausustu meðbræður og -systur fái þá aðstoð sem þau þurfa jafn snemma og þörf er á, t.d. með útvistun verkefna til einkaaðila.

Að því sögðu vil ég nota tækifærið og segja að ólíkt flestum ykkar hér inni þá er ég greindur, þ.e. greindur einhverfur. Ég held að ég sé fyrsti einhverfi alþingismaðurinn, þótt ekki sé nokkur vafi á að bæði í fortíð og nútíð hafi starfað hér fólk með alls konar raskanir. Mér sýnist að það sé alls óvíst að ég sé allra skrýtnastur hér. [Hlátur í þingsal.]