144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Margir hafa sopið hveljur yfir þeirri kröfu Starfsgreinasambandsins að taxtar verði ekki lægri en 300 þús. kr. á mánuði. Á sama tíma hins vegar eru birt gögn sem sýna á óyggjandi hátt að í þessu samfélagi eru til mikil verðmæti og miklir fjármunir en þeim er hins vegar ekki skipt jafnt. Þeim er skipt gríðarlega ójafnt og því er ekki óeðlileg krafa að verkalýðshreyfingin setji fram kröfur um að laun séu þannig að fólk geti lifað af þeim, og hvaða viðmið hafa stjórnvöld sjálf gefið út um það hvaða laun séu til að lifa af?

Ég fór að gamni mínu inn á reiknivél velferðarráðuneytisins þar sem birt eru neysluviðmið fyrir íslenska fjölskyldu og setti þar inn fjölskyldu eins og mína, þrjú börn og tvo fullorðna. Þegar skoðuð eru heildarútgjöld án húsnæðiskostnaðar, sem eru dæmigerð viðmið fyrir heimili, eru útgjöldin 610.400 kr. á mánuði. Krafa Starfsgreinasambandsins um 300 þús. kr. lægstu taxta dugir því ekki til þótt miðað sé við tvær fyrirvinnur. Þetta er veruleikinn sem blasir við á vinnumarkaði og þegar við ræðum að mikilvægt sé að varðveita stöðugleika í þessu samfélagi þreytist ég ekki á að minna á það að stöðugleikinn verður ekki eingöngu mældur í hagstærðum, hann hlýtur líka að vera mældur í því að fólk geti lifað af launum sínum. Það er auðvitað verkefni aðila vinnumarkaðarins en það er líka mikilvægt að stjórnvöld stuðli á allan þann hátt sem þau geta að því að gera það verkefni léttara, til að mynda þegar kemur að lækna- og lyfjakostnaði sem er hluti af þessum neysluviðmiðum, til að mynda þegar kemur að aðgengi að menntun og til að mynda þegar kemur að skattkerfisbreytingum þar sem við sjáum að þeir sem hæstu tekjurnar hafa hér eru skattlagðir á annan hátt en annars staðar á Norðurlöndum, það sé meiri hluti teknanna fyrir skatt.

Virðulegi forseti. Þetta er krafa sem hlýtur að vera hægt að ná sátt um að fylkja sér á bak við og styðja, að laun séu til þess að lifa af.