144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir fyrirspurnina.

Það er alveg rétt hjá henni að sumarið 2013 kom athugasemd frá Evrópuráðinu vegna þess hvernig búið var að skipa í sendinefnd Íslands. Í kjölfarið á þeim athugasemdum voru gerðar breytingar á okkar nefnd, þ.e. aðalmönnum og varamönnum. Var nefndin eftir þær breytingar skipuð þannig að aðalmenn voru sá sem hér stendur, Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna. Varamenn nefndarinnar voru síðan ákveðnir Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Með þessu uppfylltum við þær kröfur Evrópuráðsins að kynjahlutföll væru rétt, þ.e. við værum með þrjá karlmenn og þrjár konur.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að einn aðalmaður nefndarinnar hefur farið á einn aðalfund, það er alveg hárrétt hjá henni. Mér er ekki kunnugt um hversu marga aðra fundi viðkomandi hefur sinnt, en við skulum hafa eitt á hreinu varðandi Evrópuráðið. Aðalmenn og varamenn eru jafn réttháir þar inni. Það er mjög algengt þar að aðalmenn mæti ekki á fundi heldur varamenn. Þeir hafa sömu réttindi, þeir geta greitt atkvæði, þeir geta mætt á fundi, tjáð sig, sinnt kosningaeftirliti o.s.frv. Það að varamaður mæti fyrir aðalmann í Evrópuráðinu er ekki einstakt, það gerist hjá flestum sendinefndum. Oft eru aðalmenn í burtu svo mánuðum skiptir, jafnvel ár.