144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þarf að byrja á að lesa upp úr grein sem ég las aðsenda í Morgunblaðinu í morgun, með leyfi forseta:

„Greinilega sá Winston Churchill sömu vandamálin 1899 og við erum að horfa á í dag. Múslimaheimurinn hefur ekkert breyst á heilli öld en er hins vegar orðinn bæði stærri, ágengari og illvígari.

Því mun ástandið í kristnu löndunum vegna innrásar íslams aðeins versna áður en það getur batnað. Vesturlönd virðast ófær um að verjast vá íslams.“

Þetta er eftir háttvirtan bloggara Halldór Jónsson. Einnig segir greinarhöfundur fyrr í grein sinni, með leyfi forseta:

„Íslam er ekki samrímanlegt vestrænum gildum.“

Virðulegi forseti. Maður verður sífellt meira var við þessa orðræðu. Það sem háttvirtur bloggari greinir hins vegar ekki frá er að hún var mjög sambærileg gagnvart gyðingum gjörvalla 19. öld. Það þurfti frægustu voðaverk mannkynssögunnar til að henni lyki. Ef maður fer til Hollands eða Þýskalands veit hvert mannsbarn hvernig nasistum tókst á fyrri hluta 20. aldar að aðgreina gyðinga frá öðrum. Þeir einfaldlega flettu því upp. Trúarbrögð fólks voru nefnilega skráð á þessum tíma. Þessar skráningar kostuðu bókstaflega milljónir mannslífa. Á endanum var það ekki dyggð og réttsýni íslensku þjóðarinnar sem forðaði Íslandi frá nasismanum á sínum tíma heldur heppni. Vel getur gerst að hér komist til valda öfl, innlend eða erlend, sem sjá sér hag í því að kúga óvinsæla trúarlega minnihlutahópa með einhverjum eða algerum hætti.

Það er þess vegna sem við eigum að draga lærdóm af sögunni. Miðlæg skráning trúarbragða er úr öllu samræmi við þær lexíur sem við eigum að hafa lært af voðaverkum seinni heimsstyrjaldar. Það er ótækt að trúarbrögð fólks séu skráð miðlægt til þess eins að vernda fjárhagslega hagsmuni ríkiskirkju. Þó eru, merkilegt nokk, gyðingar ekki skráðir miðlægt hérlendis vegna þess að þeir hafa ekki viljað vera það sjálfir. Gyðingar lærðu nefnilega af sögunni, ólíkt hvítum kristnum Íslendingum.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.