144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum nú á þriðja degi umræðu um náttúrupassa. Það er ekki laust við að maður fari að velta fyrir sér í fullri alvöru af hverju í ósköpunum þetta þingmál hafi verið lagt fram. Nú er svo komið að það er ekki bara þannig að það sé rætt frá ýmsum hliðum í þingsal, að menn séu ósammála, þ.e. bæði fulltrúar stjórnarandstöðu og fulltrúar stjórnarflokkanna, heldur er það svo að þingflokksformenn beggja stjórnarflokkanna hafa lýst efasemdum um málið. Formaður atvinnuveganefndar er ósáttur við málið og það er ekki spurning um útfærslur eða smáatriði eða einhverja núansa í málinu. Það sem menn eru ósammála um er í raun og veru málið sjálft, þ.e. grundvallarhugmyndin um náttúrupassa. Það er þar sem menn greinir á. Og það er ekkert smáræði sem er hér undir, það er umræðan um almannaréttinn, umferðarfrelsið, um báknið, um eftirlitið, um umsýsluna, um ímynd þjóðarinnar, ímynd landsins o.s.frv.

Ég hlýt að spyrja, virðulegur forseti: Af hverju í ósköpunum leggur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram mál sem er svo illa undirbúið, svo illa baktryggt, svo illa rætt, bæði á vettvangi greinarinnar sjálfrar og á vettvangi stjórnmálanna, að það er ónýtt áður en það kemst til þingnefndar? Þetta hlýtur að vera spurning dagsins þegar við erum hér á þriðja degi að ræða stóra mál hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa.