144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:05]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér áfram á þriðja degi frumvarp um náttúrupassa. Ég ætla að fara stuttlega yfir athugasemdir mínar við málið við þessa 1. umr. en vænti þess að við vinnum málið og fáum umsagnir í nefndinni. Vonandi getum við komist að niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir þingið.

Um markmið þessa frumvarps geta auðvitað allir verið sammála. Það er að vernda náttúru Íslands, við viljum byggja upp ferðamannastaði, við viljum tryggja öryggi og við viljum efla innviði á fjölförnum ferðamannastöðum. Það er til þess að vernda náttúruna en líka til að stjórna flæði og passa upp á upplifun ferðamanna.

Ég held að ég geti fullyrt að ferðamenn sem koma til Íslands gera það af öðrum ástæðum en þegar þeir ferðast til annarra landa. Þeir sækja í hreinu náttúruna, þeir sækja í víðernið, kyrrðina, óspillt landslagið. Það er sú upplifun sem við verðum að vernda og gæta að ef við viljum áfram stefna að því að hafa ferðamannaiðnaðinn þann stærsta á landinu, eins og hann er í dag. Við erum sammála um þetta allt saman en aðferðin sem hér er rædd er hins vegar umdeildari, líkt og hefur komið fram. Það gleður mig mikið að hæstv. ráðherra er mættur í salinn. (Gripið fram í.)

Mér hefur svolítið fundist, a.m.k. síðastliðið ár og jafnvel lengur, eins og umræðan um vernd náttúruminja og uppbygging ferðamannastaða standi og falli með náttúrupassa, af því að þetta hefur verið svo lengi í umræðunni. Ráðherra hefur tekið sér góðan tíma í að vinna málið og á meðan hefur allt verið í bið, það verður að segjast eins og er. En það er alltaf hægt ef viljinn er fyrir hendi að beina fjármagni í þær áttir sem fólki finnst mikilvægt í hverjum fjárlögum. Við höfum ekkert þurft að bíða. Einhverjum fannst mikilvægt að beina fjármagni til sumra með skuldaniðurfellingu. Þá peninga hefði verið hægt að nýta til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, sem dæmi. Eins og fundnir voru peningar í það er hægt að finna peninga í þetta í hverjum fjárlögum.

Ég hafði hugsað mér að fara stuttlega yfir frumvarpið lið fyrir lið og þá kemur kannski fram það sama og hefur komið fram í máli margra þingmanna, þess vegna ætla ég að hafa þetta stutt. Það er óþarfi að vera að margtyggja það sama.

Fyrst er það umsýslan. Samkvæmt frumvarpinu á Ferðamálastofa sjá um hana alfarið, þ.e. væntanlega að kynna náttúrupassann fyrir öllum ferðamönnum og landsmönnum, selja passann og svo er það önnur umsýsla sem lýtur að því. Það kom milljón ferðamanna til landsins í fyrra og svo eru það við öll sem erum hér fyrir, þetta er því gríðarmikið verkefni sem þarf að fara í og umsýslan er mikil. Það stendur ekki mikið meira í frumvarpinu um það hvernig þessu skuli háttað en ef maður reynir að sjá það fyrir sér er það þannig að á Ferðamálastofu starfa 12 manns. Einn þeirra er í umhverfismálum, þótt ég viti svo sem ekki hvernig þetta ágæta fólk skiptir með sér verkum. En í frumvarpinu segir ekkert til um hversu víðfeðmt verkefnið er í raun, hve margir þurfi að vinna við það, hvort það þurfi að auka í umsýsluna og þessa stofnun þá eða hvað.

Í annan stað eru það ferðamannastaðirnir sem eiga að hafa aðild að náttúrupassanum. Samkvæmt frumvarpinu er með ferðamannastað átt við ákveðinn skilgreindan stað í náttúru Íslands sem hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna náttúru og sögu. Það er samt ekki tilgreint hvaða ferðamannastaðir þetta eru eða hversu margir þeir eru og þess vegna mjög erfitt að sjá fyrir sér umfang þessa alls. Mér finnst vont þegar við á Alþingi og í nefndum vinnum með lög sem við vitum ekki alveg hvað þýða, af því að hitt og þetta á að koma í reglugerð o.s.frv. En væntanlega og vonandi hefur ráðherra hugsað þetta sem svo að þingið gæti komið inn í málið og með sínar tillögur.

Aftur að ferðamannastöðunum og vöntun á skilgreiningu á þeim eða tilgreiningu á því um hvaða ferðamannastaði er að ræða. Ég tók eftir því í máli ráðherra um daginn að þessir vinsælu ferðamannastaðir þar sem landeigendur eru nú þegar að rukka gjald, eins og í minni heimasveit við Geysi og eins og við Kerið, að landeigendum er í sjálfsvald sett hvort þeir vilja gerast aðilar að ferðamannapassanum, ef ég hef skilið ráðherrann rétt. Það finnst mér mjög óheppilegt. Hvað gerist þá með ferðamanninn sem kaupir sér náttúrupassann en hann er svo óvart ekki gildur á helstu ferðamannastöðum landsins, hann bara virkar ekki þar og þeir þurfa að greiða annað gjald? Það er náttúrlega ekki góð ímynd. En ég heyrði í máli hæstv. ráðherra að hún batt vonir viðað þessir landeigendur mundu sjá sér hag í því að minnka umsýslu sína, fara undir regnhlíf hennar og fara í samstarf um ferðarmannapassa. Ég verð að segja að mér þykir það ólíklegt miðað við hvernig frumvarpið lítur út, það er allt mjög óljóst. Ef fólk getur ekki treyst á útdeilingu fjármagns, tökum Geysi aftur sem dæmi þar sem þau fá væntanlega einhverja peninga í kassann, og það kostar auðvitað líka eitthvað að vera að rukka, en ef þau geta ekki treyst á þann pening eða meiri, ef þau sjá sér ekki neinn hag í þessu öllu saman, af hverju ættu þau þá að vilja fara undir regnhlíf hæstv. ráðherra um náttúrupassa? Ég spyr mig að því. Það getur verið að ráðherra hafi svör við því.

Það eru þrjú atriði sem ég ætlaði helst að nefna og þá er komið að því þriðja sem er eftirlitið. Ferðamálastofa á líka að hafa yfirumsjón með því, að mér skilst, en það er ekki útskýrt í frumvarpinu öðruvísi en svo að það muni koma reglugerð. Hæstv. ráðherra hefur í ræðu nefnt verði svipaða stöðumælavörðum sem beita muni stjórnvaldssektum upp á 15 þús. kr. ef fólk hefur ekki passann í símanum, eða hvernig sem útfærslan verður á því. Ég verð að segja að mér þykir það frekar leiðinleg ímynd fyrir ferðamanninn sem kemur væntanlega til Íslands í víðernið, í óspillta náttúruna, í allt það sem hann fær ekki neins staðar annars staðar og svo er vörður sem getur sektað hann ef hann er ekki með þennan tiltekna passa á þessum tiltekna stað. Ég vil samt að það komi skýrt fram að ég tel fullkomlega réttlætanlegt að rukka ferðamenn, en ég er ekkert voðalega hrifin af þessari leið, eiginlega alls ekki. Ég vil vera svolítið lágstemmd af því að aðrir hafa margir svo sannarlega tekið það að sér í þessum sal að gagnrýna þetta frumvarp mikið. Ég hef fylgst með þeirri umræðu og ég verð að segja að ég hef aðeins fundið til með hæstv. ráðherra. Ég las frumvarpið aftur og hugsaði: Er þetta virkilega þannig að við getum ekki fundið eitthvað ágætt í þessu? Ég reyndi að vera lausnamiðuð. Er þetta ein leið af mörgum? Er einhvern veginn hægt að samtvinna þetta öðru? Væri það eitthvað? Ég sé það ekki fyrir mér, ég geri það bara ekki.

Mig langar mjög mikið áður en við höldum áfram að ræða hinar leiðirnar sem hafa einhvern tíma komið til greina og koma enn til greina. Við höfum nú þegar gistináttagjaldið, við höfum þegar alla innviði þar. Einhverjir segja auðvitað: Það er ósanngjarnt, það eru bara hóteleigendur sem finna fyrir því eða þurfa að leggja þau gjöld á starfsemi sína og hvað með aðra í ferðamannaiðnaðinum? Ég get alveg tekið undir þetta. Mér finnst að önnur fyrirtæki í ferðamannaiðnaði sem nýta sér náttúru Íslands, nýta sér innviðina til að keyra ferðamenn í upplifanir sínar, þeir ættu sannarlega að greiða eitthvað fyrir það beint eða óbeint eða rukka sína ferðamenn. Ég er ekki með heildarlausnina á því en er farinn að hallast að því að við eigum að skoða blandaða leið. Það er gistináttagjald, það er komugjald. Það er eins og margir séu búnir að slá það algerlega út af borðinu. Ég veit ekki alveg hvort við þurfum að gera það. Mér þætti alla vega vænt um að fá betri skýringar á því af hverju ekki er hægt að lækka opinber gjöld á móti í innanlandsflugi, hvernig við getum miðlað málum. Það er eins og það liggi augum uppi hvað þetta er kjörið ef unnið er meira í málinu.

Ég hef lesið ESA-úrskurðinn sem liggur til grundvallar, eða það er í raun álit. Mér finnst það ekki það beinskeytt að við getum ekki kannað málið frekar. Svo er það nýsjálenska leiðin, sem er kannski eitthvað eins og ég nefndi áðan, þar sem er gerður samningur við fyrirtæki um að þau skili ákveðnu gjaldi til ríkissjóðs til að fara með ferðamenn á ákveðna ferðamannastaði. Eins og ég segi er ég eiginlega farin að hallast að því að við þurfum að hugsa um einhvers konar blandaða leið.

Ég ætla að fara að ljúka þessu núna, ég er búin að segja það sem ég þarf að segja um málið í bili. En mér finnst vont ef við erum farin að ræða málið þannig, og ég vara við því, að ef maður er með eða á móti náttúrupassa sé maður með eða móti því að vernda náttúruna. Það er ekki þannig. Ríkisstjórnin þarf ekki að láta náttúruna bíða á meðan, hún þarf ekkert að gera það. Við getum alveg sett upp grindverk og hugað að öryggi og hreinlæti án þess að vera búin að fastnegla náttúrupassann eða eitthvað annað. Það er á færi stjórnvalda að finna út úr því svo að sómi sé að.