144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:25]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Já, við erum alveg sammála þó að hv. þingmaður kveði oftast fastar að orði en ég. (Gripið fram í.) Það er svo sem allt í lagi. Ég hef þá trú að með samræðu og mýkt megi finna lausnir á hinum ýmsu málum. Ég legg mig sannarlega fram um að gera það hér í dag, en þar með er ég ekki að segja að þingmaðurinn sé ekki að því.

Ég undirstrika að málið fer fyrir nefnd sem ég sit í. Ég vil gjarnan finna lausn á málinu. Hins vegar þykir mér málið ekki vera tilbúið fyrir meðferðina sem við þurfum að gefa því þar því að það eru svo margir lausir endar. Ég óttast það. Hvernig getum við tekið náttúrupassafrumvarp og breytt því í blandaða leið? Er það eitthvað sem maður bara gerir, kollvarpar hlutunum (Gripið fram í: Í atvinnuveganefnd.) svona svakalega? — Ja, atvinnuveganefnd gerir það ótt og títt, það er reyndar rétt.