144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:31]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki þannig að með öllu fjármagni sem var úthlutað í fyrra hafi þurft mótframlag. Sérstaka úthlutunin sem við lögðum til í sumarbyrjun var einmitt þannig að ekki var krafist mótframlags.

Það er alveg rétt sem þingmaðurinn nefndi, þess vegna erum við að taka á því, að aðilar að náttúrupassa þurfa ekki að leggja fram mótframlag. Það er einmitt til þess að það verði ekki litlum sveitarfélögum of þung byrði að leggja fram mótframlag vegna þess að framkvæmdirnar eru oft dýrar.

Annað varðandi þetta er að fyrirsjáanleikinn og langtímahugsunin er svo gríðarlega mikilvæg í þessu máli.

Ég er ósammála hv. þingmanni: Þetta er ekki flókið í framkvæmd. Það er ekki flókið að koma þessu á. Ég stend hér og leyfi mér að fullyrða að það þarf ekki að kosta meira til en þau 3,5% af innheimtum tekjum sem gert er ráð fyrir. Við höfum skoðað það og kannað ítarlega. (Forseti hringir.) Ég er sannfærð um að þetta nái (Forseti hringir.) fram að ganga.