144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur hér að kjarnaatriði málsins, spurningunni um skilgreiningu á almannaréttinum í þessu samhengi. Það ber svo við að ég er ekki ósammála hv. þingmanni um það að að sjálfsögðu eru almannaréttinum takmörk sett og það þýðir ekki endilega að skipulagðar hópferðir í atvinnuskyni falli undir hann, alla vega ekki frá sjónarhóli lögaðilans og þess sem skipuleggur ferðirnar. Vandamálið við nálgunina hér og það sem gerir það að verkum að ég held að þessi leið verði aldrei farin og verði aldrei fær er hin einstaklingsbundna nálgun, þ.e. að leggja þá skyldu á einstaklinginn að borga fyrir það að fara um landið, þar með talið íslenska ríkisborgara sem ferðast um sitt eigið land. Það er í lóðréttri mótsögn við almannaréttinn eins og hann hefur alltaf verið skilgreindur. Hann hefur verið réttur manna, þeirra sem hér búa, til að ferðast um landið og hann hefur sett einkaeignarréttinum takmörk allt frá landnámsöld. Það liggur algerlega fyrir. Mönnum var bannað að hlaða garða þvert á götur og þeir áttu frekar en hitt að greiða fyrir því að aðrir landsmenn gætu farið um þeirra land. Menn áttu að ganga sómasamlega um, það er rétt. Þeir máttu ekki spilla túnum o.s.frv., þeir máttu ekki taka meira en þeir þurftu á ferðum sínum en þeir máttu beita hrossunum, þeir máttu taka hrís, þeir máttu veiða sér til bjargar og þeim var frjáls för um landið og vatnavegi og þannig á það áfram að vera. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að standa að því að takmarka svona einstaklingsbundið ferðafrelsi í landinu. Ég bara trúi því ekki, ég fæ svima þegar ég hlusta á suma þingmenn Sjálfstæðisflokksins vera að reyna að mæla þessu bót í samúðarskyni með hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra augljóslega. Hvað hefur komið fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að ætla að gerast talsmaður þessarar skattlagningar sem í eðli sínu er takmörkun á ferðafrelsi (Forseti hringir.) almennings í landinu?