144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið erum við nú komin á þriðja dag umræðu um frumvarp hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa. Eftir því sem þeirri umræðu vindur fram þá fjölgar spurningunum frekar en hitt. Það er frekar svo að efasemdirnar vaxi en hitt, er ég þá ekki að tala um í huga þeirrar sem hér stendur heldur greinilega þeirra sem eiga að mynda faglegt og pólitískt bakland þessarar lagasmíðar.

Þingflokksformenn beggja stjórnarflokkanna hafa ekki bara lýst efasemdum um upplegg og útfærslu þessa máls heldur um kjarnann í því. Formaður atvinnuveganefndar, sem er nefndin sem á að fjalla um málið, hefur aukinheldur lýst yfir efasemdum, en jafnframt vilja og vissu um það að hann og hans þingnefnd séu til þess bær að leggja fram í raun og veru aðra útfærslu, þá væntanlega í samráði við greinina og þá sem best þekkja til.

Það eru stór mál sem eru hér undir. Það eru stór mál sem menn hafa efasemdir um. Það eru kjarnamál bæði í pólitík og í sýninni á umgengni okkar um landið. Þar ber hæst í mínum huga umræðan um almannaréttinn sem hér var ræddur í samskiptum síðasta ræðumanns við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon í andsvari, enda er þar um að ræða kjarnahugtak í íslenskri löggjöf. En veruleikinn er hins vegar sá að nákvæmlega þetta hugtak, þ.e. skilningurinn á almannaréttinum og hvernig beri að beita honum og hvernig rétt sé að skilja hann, er undir í endurskoðun náttúruverndarlaga þessa dagana og þessar vikurnar í umhverfisráðuneyti í samstarfi við hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það hvernig við skiljum almannaréttinn, hvort hægt sé að nýta almannaréttinn í atvinnuskyni, er hrygglengjan í því hvernig gjaldtökunni er háttað eða hvernig útfærslan yrði á því frumvarpi sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggur hér fram.

Enn og aftur er því þetta þingmál til marks um að það skortir algjörlega á verkstjórn í ríkisstjórninni. Það skortir fullkomlega á einhvers konar yfirsýn eða samtal um það á hvaða vegferð fólk eiginlega er. Virðulegi forseti. Það er ekki hægt, það gengur ekki að vera með frumvarp í þinginu sem byggir á tilteknum skilningi á almannarétti meðan sá hinn sami almannaréttur er til skoðunar við endurskoðun náttúruverndarlaga. Þá eru menn að gera hlutina í vitlausri röð. Hvernig skilur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra almannaréttinn? Það bara gildir einu, vegna þess að nákvæmlega sá skilningur er til umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í samstarfi við hæstv. umhverfisráðherra og ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála. Fyrr en það liggur fyrir, hvernig þingið skilur almannaréttinn, og sérstaklega með hliðsjón af aðkomu landeigenda og ferðaþjónustuaðila, er frumvarp eins og þetta í raun og veru byggt á sandi. Það kemur ofan úr blámanum og er í lausu lofti.

Víkjum þá að öðrum þeim þáttum sem valda manni furðu þegar flokkur hæstv. ráðherra er annars vegar. Það er að ráðherra sem kemur úr flokki einstaklingsfrelsisins, sem kemur úr flokknum sem talar í tíma og ótíma gegn skattheimtu, flokkur sem talar sífellt og við öll möguleg og ómöguleg tækifæri um að draga þurfi úr eftirlitsiðnaðinum, að auka þurfi skilvirkni í kerfinu, að sá ráðherra skuli koma fram með mál sem gerir hvað? Sem býr til nýtt bákn, nýtt eftirlit. Nýtt eftirlit með hverju? Með ferðum einstaklinga. Með ferðum einstaklinga um þúfur, yfir læki, í mosató, hér og þar um landið. Allt í einu er það orðið eitthvað sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins finnst koma til greina að sé undirsett einhvers konar eftirlitsfulltrúum ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég er bara að missa þráðinn í þessari pólitík hérna. Hvað er eiginlega að gerast í Sjálfstæðisflokknum? (ÖS: Þessu velti ég líka fyrir mér.) Svo getur maður líka velt fyrir sér því sem hæstv. ráðherra sagði, en ég tók eftir því að hæstv. ráðherra hékk á því í umræðunni við framsögu málsins fyrir nokkrum dægrum síðan að fella ætti niður gistináttagjaldið. Frumvarpið væri gleðiefni vegna þess að fækka ætti sköttum í samfélaginu, þess vegna væri það gott mál. Einn skattur inn og annar skattur út. Þetta er álíka nálgun og þegar hæstv. fjármálaráðherra fækkaði virðisaukaskattsþrepum úr tveimur í tvö. Það hafa nú stærri tölur vafist fyrir fólki en það að leggja saman einn og einn og tvo og tvo, en það er greinilega eitthvað sem hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru í vandræðum með.

Því er ósvarað með öllu af hverju í ósköpunum hæstv. ráðherra leggur yfir höfuð málið fram. Ég rakti hér áðan stöðuna gagnvart almannaréttinum og svo pólitíska stöðu málsins, þ.e. ferðafrelsið og báknið og eftirlitið og að það væri ekki einu sinni pólitískur stuðningur við málið, sem væri nú kannski sök sér ef þetta væri nú bara 14. mál hæstv. ráðherra eða 26. mál hæstv. ráðherra eða 19. mál hæstv. ráðherra. Það er bara ekki svo. Þetta er Málið. Þetta er málið sem hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir flytur þinginu hér og það er ekki tilbúið. Það er ekki tilbúið til þess að vinna úr því. Málið er þannig að hæstv. atvinnuveganefnd er sett á byrjunarreit í málinu. Ég lýsi áhuga og vilja til þess að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs komi að því með uppbyggilegum hætti að útbúa eitthvert það kerfi sem dugar. En það er frá byrjunarreit, virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra skilar auðu í þessu máli. Þetta er hugmyndaplagg. Þetta er götótt hugmyndaplagg.

Það að setja í gang þetta umstang, þetta kerfi, nýja starfsstétt eftirlitsmanna á vegum ríkisins fyrir þessa upphæð er með algerum ólíkum. Þetta er svakalegt eftirlitskerfi fyrir 1 milljarð króna.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið er nú ekki þekkt fyrir það að vera gamansamast ráðuneyta Stjórnarráðsins. Þó er ekki langt frá því að í kostnaðarumsögn hæstv. fjármála- og efnahagsráðuneytis sé kímnigáfu fyrir að fara. Ég get ekki annað en lesið hér upp úr kostnaðarumsögninni, með leyfi forseta:

„Frumvarpið gerir sem fyrr segir ráð fyrir því að Ferðamálastofa skuli hafa eftirlit með því að einstaklingur sé eigandi að gildum náttúrupassa sem greitt hefur verið fyrir á þeim ferðamannastöðum sem eiga aðild að náttúrupassa. Samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu er gert ráð fyrir einu nýju stöðugildi hjá Ferðamálastofu vegna þessa og mun sá aðili sinna eftirliti ásamt öðrum starfsmanni sem er starfandi hjá stofnuninni í dag.“

Svo færist fjör í leikinn:

„Þegar horft er til þess að gert er ráð fyrir að erlendir ferðamenn á árinu 2014 nálgist eina milljón er vandséð hvernig þessi áform eiga að tryggja trúverðugt eftirlit á þessum tilteknu ferðamannastöðum sem væntanlega gætu skipt hundruðum sé litið til úthlutana úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til þessa.“

Hvernig í ósköpunum á þetta eftirlit að fara fram með milljón ferðamönnum á hundrað stöðum eins og lagt er upp í þessu gloppótta máli hæstv. ráðherra?

Það er rétt sem hér hefur komið fram í ræðum þingmanna og m.a. í ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen hér áðan, viðfangsefnið sem er kannski brýnast er ekki það sem hæstv. ráðherra nálgast með þessu þingmáli. Miklu frekar er viðfangsefnið það hvernig við í ósköpunum eigum að stýra álagi á staði sem eru seglar fyrir ferðaþjónustu og umgang ferðamanna. Þetta mál nálgast það ekki með nokkru móti. Þetta mál tryggir ekki með nokkru móti að dreifing ferðamanna sé í einhverju samræmi við það sem svæðin þola.

Í framhaldi af því er rétt að nefna að lögmálið um framboð og eftirspurn sem er mönnum afar kært er ekki það lögmál sem stendur sem best vörð um náttúruna. Af hverju er það? Vegna þess að staðir og náttúrusvæði þurfa afar mismikla peninga, mismikla uppbyggingu eftir verndargildi þeirra og eftir því hversu viðkvæmir staðirnir eru. Það fer alls ekkert eftir því hversu mikill ágangur er á staðina eða hversu mikil umferð er um þá. Ef markmiðið er það sem kemur fram í 1. gr. frumvarpsins, að stuðla að verndun náttúru Íslands að nauðsynlegri uppbyggingu, viðhaldi o.s.frv., þá er lögmálið um framboð og eftirspurn ekki leiðin til þess að tryggja þá vernd. Það eru almenn náttúruverndarsjónarmið sem byggja á rannsóknum og þekkingu á náttúru Íslands, gróðurfari, vistkerfi og lífkerfi o.s.frv., ekki því hvað flestir ferðamenn horfa á eða hvar flestir ferðamenn vilja fara út úr rútunni. Þannig að sú nálgun sem kom fram í máli hv. þm. Sigríðar Andersen um að hver staður ætti að rukka fyrir sig er leið villta vestursins og leiðir okkur ekki neitt. Það er kannski versta leiðin.

Ég hjó eftir því og fleiri þingmenn hafa nefnt það hér að samkvæmt þeim lögum sem gilda um gistináttagjald er ætlunin sú að 2/5 af því gjaldi renni til þjóðgarða og friðlýstra svæða, þ.e. Vatnajökulsþjóðgarðs, Þingvallaþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar í þágu þeirra friðlýstu svæða sem eru á hendi stofnunarinnar. Samkvæmt frumvarpinu hér er lagt til að gistináttagjaldið fari út og það er ekki hægt að sjá með nokkru móti í þingmálinu hvernig gert er ráð fyrir að bæta Umhverfisstofnun og þjóðgörðunum upp það tekjutap.

Virðulegur forseti. Þar erum við að tala um ríflega 100 friðlýst svæði á Íslandi. Það eru ekki aðrir staðir en þeir staðir sem hér eru ræddir. Þannig að menn verða að gæta að því að fjöldinn allur af þeim stöðum sem eru þeir seglar sem ferðaþjónustan gerir út á eru einmitt staðir sem eru nú þegar í vörslu og umsjá Umhverfisstofnunar sem friðlýst svæði.

Það er svo að Ísland er allt ein náttúruperla. Það er ekki rétt nálgun í þessu efni að horfa á aðskilin svæði eða lista af svæðum eða aðdráttaraflsstaði fyrir ferðaþjónustu. Það er ekki hægt að nálgast þetta mál með öðru móti en með almennum og víðtækum skilningi á gildi og mikilvægi náttúruverndar. Lausnirnar er að finna í almennri nálgun, í almennri skattheimtu. Við erum með gistináttagjaldið sem hefur gefist vel. Það er hægt að fara þá leið og útfæra hana enn þá betur.

Ég lýsi mig tilbúna til þess að koma að því að reyna að leysa þetta mál, en (Forseti hringir.) til þess þarf ráðherrann, og ríkisstjórnarflokkarnir, (Forseti hringir.) að sýna auðmýkt.