144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:10]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var ágætisræða hjá hv. þingmanni, dramatískt flutt með miklum lýsingum á eftirlitssveitum á ferð um þúfur og mosató. Þrátt fyrir það held ég að hv. þingmaður geri sér alveg grein fyrir því að það er ekki um það sem þetta mál snýst. Látum það nú vera.

Mig langaði að ræða við hv. þingmann um almannaréttinn sem ég er alveg sammála að skipti máli í þessu samhengi. Ég deili því sjónarmiði og það er nákvæmlega þess vegna sem mikið er lagt upp úr því að ekki sé verið að elta fólk um þúfur og mosató heldur verið að tryggja að á ákveðnum fjölsóttum stöðum verði menn inntir eftir náttúrupassa.

Á þingi í janúar 2013 var hv. þingmaður, þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, spurður um almannaréttinn. Þá sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„… við verðum að halda því til haga að grundvöllur ákvörðunartöku er náttúruverndin sem slík, hún er númer eitt. Númer tvö er síðan hin mikilvæga aðkoma almennings, að nýta og njóta landsins.“ (Forseti hringir.)

Er þingmaðurinn ekki enn þá þessarar skoðunar?