144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gildir nú einu hvaða skoðun ég hef á því hvort þetta sé meginregla umhverfisréttarins eða ekki, hún er það sem og varúðarreglan sem er kannski hjartað í meginreglum umhverfisréttarins. Það er svo að nytjagreiðslureglan gerir ráð fyrir því að þeir greiði sem njóti, þ.e. þeir sem hafa af því hag að nýta eða njóta leggi eitthvað til. Enda er það auðvitað það sem gistináttagjaldið byggir á. Það er það sem komugjaldið, sem hefur líka verið í umræðunni, byggir á. Það er það sem virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna snýst um. Það er það að þeir sem eru ferðamenn, og þar af eru 80% þeirra sem njóta og nýta íslenska náttúru, leggi eitthvað af mörkum í ríkissjóð og úr þeim hinum sama ríkissjóði verði lagt til fé til náttúruverndar og uppbyggingar á ferðamannastöðum.