144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að minnsta kosti algjörlega ljóst að það stendur upp á þingið að taka mál til skoðunar og þingið verður að freista þess að finna einhverja leið. Ég heyri það á umræðunni hér að þegar allt er lagt saman eru menn almennt þeirrar skoðunar að einhvers konar samsettar leiðir séu bestu leiðirnar. Ég nefndi sjálf nokkrar í minni ræðu og í andsvörum á dögunum nefndi ég þá hugmynd að hverfa frá endurgreiðslu á virðisaukaskatti á því sem kallað er „tax free“-kaup hjá erlendum ferðamönnum. Það skilar ríkissjóði núna 1,6 milljörðum á ári sem er ekkert langt frá þeirri tölu sem hér er til umræðu. Þá værum við að tala um beinlínis þá sem ráðstafa fjármagni á Íslandi og væru þessir ferðamenn í hlutfalli við það hversu miklu þeir eyða á landinu. Það er eitt af því sem mætti skoða. Ég hef ekki heyrt þá umræðu enn þá í þessu samhengi öllu, en það er eitt af því sem mér fyndist vera sjálfsagt að skoða. En niðurstaðan er sú að það er þingið sem verður að gera þetta vegna þess að ráðherrann gerði (Forseti hringir.) það ekki.